Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 12:54:29 (6995)

2000-05-08 12:54:29# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[12:54]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að þessi skýrsla er fram komin og fagnaðarefni að hér á sér stað umræða um þá skýrslu.

Við upplifðum það þegar Vatneyrardómurinn féll, þ.e. endanlega í Hæstarétti, að þá kom fjöldi manna sem hafði haft sig mjög í frammi í umræðunni og sagði að aldrei hefði verið deilt um lögfræðina í þessu máli, aldrei verið deilt um það hvort þetta mál stæðist stjórnarskrá eða ekki. Það kom okkur mjög á óvart, mörgum hér, sem í salnum höfðum hlustað á mann eftir mann eftir mann halda því fram að þetta væri allt saman kolólöglegt og stangaðist á við stjórnarskrána. Um leið og dómurinn féll hafði það nú ekki verið deilumálið.

Núna kemur þessi skýrsla og hún er góð vegna þess að hún sýnir vissa hluti, sem m.a. þeir sem þannig töluðu eftir dóminn um Vatneyrarmálið, gætu lært af, vegna þess að eftir útkomu þessarar skýrslu eru afar fáir endar lausir. Þeir sem höfðu reynt að ýta undir það að koma því inn hjá fólki að Íslendingum væri gott eða jafnvel nauðugt, eins og fleiri tala núorðið --- að þetta væri einhver nauðung sem menn lenda í og þess háttar --- þeir sem hafa viljað halda því að fólki að mönnum yrði nauðung að ganga í Evrópusambandið fyrr eða síðar hafa reynt að halda því fram að þetta væri allt saman mjög opið og það væri hægt að semja um allt mögulegt sem ekki væri fyrir hendi nú, að um allt sem mönnum þætti óþægilegt núna væri hægt að semja í ferlinu. Þetta hefur ekki verið mjög merkilegur málflutningur frekar en málflutningurinn um að lögin stönguðust á við stjórnarskrána og kannast svo ekkert við það.

Núna kemur þessi skýrsla og þá kemur á daginn að endarnir lausu eru afskaplega fáir. Þetta liggur allt saman meira og minna fyrir. Þess vegna er út af fyrir sig alveg fáránlegt og út í hött þegar heill flokkur kemur saman, hefur að vísu ekki mjög langan tíma fyrir málefnalegar umræður, en kemur svona saman og segir svo eftir það um Evrópumálin að nú þurfi menn að skilgreina okkar samningsmarkmið. Þarna er á því byggt að þessir lausu endar séu allir fyrir hendi enn þá.

En skýrslan tekur af öll tvímæli. Þeir eru ekki lausir og það er afskaplega gott. Pakkinn liggur fyrir. Í öllum megindráttum liggur pakkinn fyrir. Það liggur fyrir nákvæmlega hvaða kosti við mundum þurfa að búa við varðandi sjávarútveginn. Það eru engir lausir endar í því og það á ekkert að vera að halda því að fólki að það séu lausir endar í því.

Hins vegar geta menn deilt um þetta og sagt: ,,Ég vil gjarnan ganga í Evrópusambandið þrátt fyrir þá annmarka sem hér eru á ferðinni.`` Það geta menn sagt og það eiga menn að segja. En menn eiga ekki að segja að Íslendingar geti komið og fengið einhvern allt annan samning en sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins gengur út á. Skýrslan tekur af öll tvímæli um það sem betur fer að slíkir lausir endar eru ekki fyrir hendi. Það verður að gera þá kröfu til fólks sem ætlar að ræða þessi mál af ábyrgð og festu að það ræði málin út frá staðreyndum en ekki út frá einhverjum draumaheimi sem það býr til sjálft og segja: ,,Þetta er allt hægt að semja um.`` Skýrslan tekur af öll tvímæli um að það er ekki hægt.

Ég hafði dálítið gaman af því að þegar nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, sem ég vil nú óska til hamingju með það merkilega starf, kom hér áðan og taldi skýrsluna mikilvæga sem umræðugrundvöll um það hvort menn ættu að ganga í Evrópusambandið eða ekki, rétt eins og það væri svona opið, vegna þess að sami maður, örfáum dögum fyrir síðustu kosningar --- Samfylkingin hafði, eins og menn muna, ákveðið fyrir kosningarnar að innganga í Evrópusambandið væri ekki á dagskrá þetta kjörtímabil. Meira að segja hv. þm. Sighvatur Björgvinsson féllst á þá niðurstöðu. En fjórum, fimm dögum fyrir kosningar gerðist það að sendiboðar frá Alþýðusambandinu hitti einhverja skrifstofumenn sem taka á móti þúsundum sendinefnda í Brussel og ræddu við þá. Þegar þeir komu heim til baka varð nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar svo mikið um að þessi heimsókn hafði gjörbreytt allri myndinni. Þetta var ekki mörg hundruð síðna skýrsla. Þetta var heimsókn nokkurra manna, eins og aðrar venjubundnar heimsóknir, sem höfðu hitt nokkra skrifstofumenn úti í Brussel. Og út á þessa heimsókn snarsnerist nýkjörinn formaður bara á hælunum --- féll frá stefnu Samfylkingarinnar sem búið var að boða í kosningunum og boðaði einn og persónulega sjálfur að nú skyldi öllu snúið á haus og nú skyldu menn bara ganga lóðbeint í Evrópusambandið.

Ekki veit ég hvort Alþýðusambandið er búið að fara aðra ferð. Það hlýtur eiginlega að vera og kontóristarnir hafa eitthvað dregið í land því að sami maður hefur snúist á hælunum aftur. Nú á að fara að lesa skýrslur og nú á að fara að skilgreina samningsmarkmið okkar. Það þurfti nú ekki fjórum, fimm dögum fyrir kosningar. Ónei, bara beint inn í Evrópusambandið vegna þess að piltarnir frá ASÍ höfðu hitt þarna nokkra kontórista sem höfðu talað við þá. Eins gott að taka mark á slíku. Þannig var það þá hjá þessum ágæta nýkjörna formanni sem ég var að óska til hamingju með kjörið, fyrst hann er nú kominn í salinn.

Svo að ég nefni það í leiðinni fyrst hann er til umræðu hér þá gat hann nú reyndar ekki stillt sig um að senda nokkra pillu á hæstv. utanrrh., þ.e. að hann hefði ekki borið gæfu til þess að sjá gæðin við EES-samninginn, svo bætti hann við ,,eins og ég og mínir pólitískir ættingjar gerðu``.

Þetta fannst mér stórmerkileg yfirlýsing daginn eftir að hann er kjörinn formaður í flokki sem sameinaðist úr Alþb. og Alþfl. þar sem hann bara afneitar helmingnum af familíunni hér og nú. Hann er ekkert skyldur því liði sem greiddi atkvæði á móti. ,,Ég og mínir pólitísku ættingjar greiddum atkvæði með þessum samningi.`` Þarna er einhver maður sem er kominn úr ættinni til að mynda, sestur. Margrét Frímannsdóttir er líka utan ættar og fleiri og fleiri. Það er fróðlegt að heyra þetta. En svona snúast nú menn.

[13:00]

Annað er gott við þessa skýrslu sem menn ættu að taka vel eftir. Þegar rætt er um EES-samninginn segir fólk: EES-samningurinn hefur veikst, skilyrði hans hafa veikst. Veikst frá hverju? Þegar menn síðan lýsa því hvað hafi veikst við EES-samninginn, þá lýsa þeir því hvað EES-samningurinn annars vegar felur í sér og Evrópusambandsaðild hins vegar felur í sér. Það hefur ekkert breyst varðandi EES-samninginn. Við vissum þetta þegar við fórum inn. Þegar menn eru að lýsa vandræðum EES-samningins þá segja þeir: Við getum ekki farið alla leiðina upp eins og við værum í Evrópusambandinu. Það vissum við þegar við samþykktum EES-samninginn, bæði fjölskylda hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hinir sem ekki eru í familíunni. Við vissum þetta allt saman á þeim tíma. Það hefur ekkert breyst.

Nú segja menn að allt gæti breyst því að Noegur gæti farið inn o.s.frv. Er það einhver breyting? Vissum við það ekki? Var það ekki þannig að Finnland og Svíþjóð voru að fara inn og Norðmenn búnir að sækja um aðild þegar við samþykktum EES-samninginn? Við gerðum okkur öll grein fyrir því hvað það mundi þýða og létum engan bilbug á okkur finna.

Það er nefnilega rangt, sem einhver talaði um áðan og hafði bersýnilega ekki lesið skýrsluna, að EES-samningurinn hafi ekki gengið vel. Það er þvert á móti tekið fram í skýrslunni, ég ráðlegg mönnum að lesa hana, að EES-samningurinn hafi gengið ákaflega vel og á því er engin breyting. Ég var nú síðast á fundi í Kolding með Prodi, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þar sem hann ítrekaði að engin vandkvæði væru á framkvæmd EES-samningsins. Svo koma hér menn sem vita eitthvað betur en Romano Prodi, eru eitthvað nær Evrópusambandinu en hann, og vita allt um málið og gangi óskaplega illa. Það er ekki fótur fyrir því.

Síðan kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson og segir að þetta snúist ekki um 3 milljarða. Það er reyndar þannig að talan sem er varfærnislegast gefin upp, 8 milljarðar, og síðan styrkirnir til baka sem væntanlega eru ofmetnir. Þar er talið það sem er í byrjun. Það er líka ljóst að miðað við stöðu okkar munu þessir styrkir fara lækkandi og við munum heldur ekki þiggja þá alla þannig að þessi tala er miklu hærri.

Síðan gerist það við stækkun bandalagsins að þetta gap mun breikka enn þá meira. Eins og Prodi lýsti yfir í Kolding mun þátttakendum í Evrópusambandinu fjölga um 80--90%, ef þetta allt saman gengur eftir, meðan tekjurnar munu aukast um 7%. Þá sjá menn gapið og hve stórt er þetta gap? Þetta eru u.þ.b. 10 milljarðar á ári. Það finnst formanni Samfylkingarinnar ekki merkilegur hlutur, 10 milljarðar á ári, 100 milljarðar á 10 árum. Það er ekki merkilegur hlutur. Þetta eru sömu 10 milljarðarnir og Danir, sem eru 20 sinnum fjölmennari en við, treysta sér ekki til að borga í byrjun með Færeyjum til að hjálpa þeim að öðlast sjálfstæði. Þetta er upphæð sem vex þeim í augum. Það er ekki upphæð sem vex okkur í augum, að henda til Evrópusambandsins 10 milljörðum á ári. Danir munu þá væntanlega borga 200 milljarða á ári til sambandsins.

Þetta eru háar tölur en vandamálið er að það vantar röksemdir. Eina röksemdin er nauðungin. Við neyðumst til að fara í þetta fyrr eða síðar. Ætla menn ekki að hafa einhverja skoðun á því?

Svo kemur nýkjörinn varaformaður Samfylkingarinnar, til hamingju með það varaformaður Samfylkingarinnar, og segir að það sé gott að fara í Evrópusambandið því að umhverfismálin séu í miklu betra fari þar, reglurnar miklu betri þar. Hvaða metnaður er nú þetta? Ef reglurnar í einhverju máli eru betri einhvers staðar annars staðar þá bara breytum við því. Ef umhverfismálin eru ekki í nógu góðu lagi hjá okkur þá breytum við því. Við förum ekki í Evrópusambandið til að gera það, er það? Förum við ekki sjálf með okkar pólitíska vald? Sama á við um öll önnur mál sem menn eru að taka hér upp.

Þessi skýrsla er afar góð. Hún er þekkingargrundvöllur. Það er auðvitað krafa að menn lesi hana áður en þeir koma hér og fjalla um hana. Ella geta menn ekki fjallað um hana af viti. Lesi menn þessa skýrslu kemur á daginn að hún hefur styrkt þá skoðun að skrefið sem tekið var með EES var rétt, á því hefur engin breyting orðið. Það er ekkert sem knýr okkur til að gera breytingu í þeim efnum.

Að vísu eru til menn sem hoppa á hælunum við að 10 manna skrifstofuhópur fari í ferð til Brussel. Slíkt skiptir út af fyrir sig ekki eins miklu máli og skýrslan hér. Þeir láta önnur lögmál ráða því hvernig þeir snúast í pólitískum vindum. Það geta menn ekki gert að mínu viti og alls ekki eftir að þeir eru orðnir formenn flokka, snúist eftir því hvernig vindurinn blæs í það og það sinnið. Þetta er stórmál sem við eigum að túlka sem stórmál. Ísland stendur vel, Ísland stendur styrkt og Ísland þarf ekki á því að halda eins og staðan er í dag að gera á því breytingu.