Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 13:04:49 (6996)

2000-05-08 13:04:49# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[13:04]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Okkur er öllum ljóst að eitt mikilvægasta hlutverk ríkisstjórnar og þings er að tryggja stöðu Íslands og Íslendinga í viðskiptum og öðrum samskiptum við aðrar þjóðir. Evrópusamstarfið er þar á engan hátt undanskilið og nauðsyn að unnið sé í ljósi raunverulegra hagsmuna, ekki eingöngu hugsjóna eða einhverra framtíðarvona og að niðurstaða náist sem opni okkur raunhæfan aðgang að mörkuðum til viðskipta og að menntastofnunum, rannsóknum og þróunarstarfi til þekkingar, tæknivæðingar og nýsköpunar. Það undirstrikar mikilvægi þess að við erum Evrópuþjóð. Arfleifð okkar er þaðan runnin og á þar rætur. Við viljum rækta þær rætur.

Ísland hefur frá upphafi verið fylgjandi samstarfi Evrópuríkjanna, tekið þátt í því og stutt framgang þess. Aðild okkar að EFTA og síðar að Evrópska efnahagssvæðinu hefur verið okkur hagfelld og raungott tæki til að leggja fram okkar skerf í þessu starfi sem varðar miklu fyrir sífellt fleiri lönd og þjóðir. Markmið samstarfsins, innan Evrópusambandsins sérstaklega, er samruni aðildarríkja sem ekki er víst að eigi við um öll ríkin sem taka þátt í Evrópusamstarfinu. Það tekur til fjölmargra málaflokka og snertir störf einstaklinga og fyrirtækja, samtaka og stjórnvalda. Nærtækt er að nefna nýleg dæmi: Það nær nú til sveitarstjórna en gerði ekki áður, nær nú til mótunar sameiginlegrar stefnu í öryggis- og varnarmálum ríkja sem áður ræddu ekki saman.

Skýrsla hæstv. utanrrh. og hans manna er efnismikil og sjálfsagt að þakka fyrir hana. Við mættum gjarnan ræða þessi mál með skemmra millibili en nú hefur orðið en þessi skýrsla varpar góðu ljósi á marga fleti Evrópusamstarfsins sem við Íslendingar höfum sérstakar ástæður til að skoða og ræða.

Með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu hefur Evrópusamstarfið meiri áhrif en áður á lífskjör okkar, á tækifæri og lífsgæði hér á landi. Það einstæða einkenni þessa samnings, að hann skuli taka breytingum og þróast gerir það að verkum að við erum betur sett og möguleikar okkar til að tryggja hagsmuni okkar og stöðu innan Evrópusamstarfsins eru fleiri en ella. Það gildir áfram meðan við erum aðilar að þessum samningi. Aðild að Evrópusambandinu er af þessum sökum ekki eini kosturinn í stöðu okkar, framtíðarþróun Evrópska efnahagssvæðisins og samningsins sem um það gildir er annar kostur og jafnraunhæfur. Hann hefur að auki marga aðra mikilvæga kosti sem við getum ekki án verið. Það segir nokkuð um álit ýmissa raunhæfra aðila innan Evrópusambandsins um hag okkar af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að oft er sagt við okkur Íslendinga að við höfum fengið það besta en komist undan því versta. Það eru sem sé ókostir við að vera Evrópusambandsríki.

Einn þeirra möguleika sem sífellt er velt upp þótt einkennilegt kunni að virðast er einmitt sá að Bretland gangi hugsanlega úr Evrópusambandinu og komi aftur til liðs við EFTA.

Það kom engum á óvart á sínum tíma að nokkur fyrrverandi EFTA-ríki gerðust aðilar að Evrópusambandinu í kjölfar samningsins um EES. Það vissum við öll fyrir en aukin verkefni Evrópusambandsins í austri í viðræðum við hugsanlegar og væntanlegar nýjar aðildarþjóðir hafa hins vegar gert það að verkum að embættismenn og viðræðuaðilar sambandsins hafa ekki ráðrúm, kannski ekki áhuga en á það er ekki fullreynt, til að halda áfram þróun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Ef við lítum til baka er ljóst að afdrifaríkasti einstaki áhrifaþáttur samningsins fyrir okkur var niðurfelling innflutningstolla að stærstum hluta af sjávarafurðum á markaði Evrópusambandsins sem okkur var mikilvægasti markaðurinn og er enn. Þessi niðurfelling var á sínum tíma metin til 94% og jafnvel 96% af þáverandi tollabyrði vegna sjávarafurða okkar. Það er rétt að meta það að vægi sjávarútvegs á Íslandi er nokkuð í líkingu við þetta þegar litið er til ríkja Evrópusambandsins. Við lifum og byggjum öflugt efnahagslíf á lifandi og endurnýjanlegum auðlindum í sjávarútvegi. Flest ríki sambandins byggja efnahagslíf sitt á dauðum auðlindum, iðnaði sem á sér allt aðrar forsendur en okkar.

Þegar við lítum yfir stjórn Evrópusambandsins á nýtingu auðlinda er ljóst að það hefur lítil tök á afkastagetu veiðiskipanna. Þeir hafa ekki tök á stjórn nýtingu stofnanna sem skiptir miklu. Ef við ætlum að gerast aðilar þar og stefna jafnframt að því að fá vottun fyrir sjávarafurðir okkar sem afurðir lífrænnar starfsemi sem starfrækt sé á grunni sjálfbærrar þróunar þá er víst að undir stjórn Evrópusambandsins verður það útilokað.

Herra forseti. Í ljósi annarra atriða sem hér hafa verið dregin fram en þó ekki væri nema hins síðastnefnda er ljóst að okkur er engin nauðung að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Aðrir kostir eru fyrir hendi og við þurfum að gæta þeirra og rækta þá.