Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 13:34:15 (6999)

2000-05-08 13:34:15# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, SighB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hæstv. forsrh. hér áðan og um miðbik ræðunnar áttaði ég mig á því að hæstv. forsrh. var alls ekki að tala við formann Samfylkingarinnar eða okkur samfylkingarmenn. Hann var að tala við hæstv. utanrrh., starfsbróður sinn í ríkisstjórninni og gagnrýna málflutning hans. Tökum dæmi.

Hæstv. forsrh. sagði m.a. að hér kæmi fólk sem héldi því fram að fullnægjandi svör lægju ekki fyrir í skýrslunni við öllum þeim spurningum er varða hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hér kemur fólk, sagði forsrh., sem heldur því fram að það séu einhverjir lausir endar. Hvaða fólk hélt því fram? Á bls. 6 í ræðu hæstv. utanrrh. segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er ekki síst þessi staða sem kallar á að aðildarkosturinn sæti frekari skoðun. Fyrsta atrenna er gerð með þessari umfangsmiklu skýrslu. En hún gefur ekki viðhlítandi svör og frekara starf þarf að fara fram.``

Hver sagði þetta? Hvaða fólk kom og flutti þennan boðskap sem hæstv. forsrh. gagnrýnir og sagði að færi rangt með? Það var hæstv. utanrrh. Það var því ekki formaður Samfylkingarinnar sem hæstv. utanrrh. var að ræða við. Það var formaður Framsfl.

Hæstv. forsrh. sagði líka að hingað kæmi fólk --- hann tók alltaf þannig til orða að hingað kæmi fólk --- sem segði að EES-samningurinn hefði veikst og þar væri ekki um frambúðarlausn að ræða. Hér kemur fólk, sagði hæstv. ráðherra, sem heldur þessu fram. Hvaða fólk hefur komið hingað til þess að halda þessu fram? Nú, hæstv. utanrrh. Hvar? Í ræðu sinni sem hann flutti hálftíma áður en hæstv. forsrh. steig í ræðustólinn. Hvar í þessari ræðu sagði hæstv. utanrrh. þetta? Hann sagði, á bls. 6:

,,Valið gæti því staðið milli verulegra takmarkana á umfangi og þróunarmöguleikum EES-samningsins annars vegar og fullrar aðildar hins vegar.``

Hvaða fólk hefur komið hér og sagt: EES-samningurinn er ekki fullnægjandi? Það var ekki formaður Samfylkingarinnar. Nei, það var formaður Framsfl., hæstv. utanrrh. Við hvern var hæstv. forsrh. að tala í allri sinni ræðu? Hann var að tala við samstarfsmann sinn í ríkisstjórn sem leggur fram þessa skýrslu. Þetta var svipað og þegar stjórn Sovétríkjanna á kaldastríðsárunum var að skamma Albani og allir áttuðu á því að hún var ekki að skamma Albani. Hún var að skamma Kínverja. Eins var þegar hæstv. forsrh. kom upp og fór að ráðast á formann Samfylkingarinnar. Hann var ekki að ráðast á formann Samfylkingarinnar frekar en Sovétmenn réðust á Albani á árum áður. Hann var að ráðast á formann Framsfl. Þegar hann talaði um að maður snerist á hæli í málflutningi sínum átti hann ekki við formann Samfylkingarinnar. Hann átti við manninn sem sat hjá þegar greidd voru atkvæði um hið Evrópska efnahagssvæði og leggur nú fram skýrslu þar sem sú ákvörðun er lofuð í hástert. Þetta er dæmi um hvernig samskiptin eru að verða á stjórnarheimilinu.

Herra forseti. Skýrslan sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fyrir okkur og ekki síst ræðan sem hann flutti, sem er í ýmsum atriðum öllu gleggri en skýrslan og með skýrari boðskap, er mjög gott framlag, ekki vegna þess að þar sé öllum spurningum svarað heldur vegna þess að þetta brýtur múrinn. Nú getur umræðan hafist. Ég ætla að ítreka það sem formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðustól og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir tók undir. Við óskum þess mjög eindregið að þegar fyrir liggja umsagnir hagsmunaaðila eins og Alþýðusambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, væntanlega, Neytendasamtakanna og annarra slíkra og viðbætur við úttektir í þessari skýrslu, þá verði séð til þess að Alþingi taki málið upp á nýjan leik.