Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:18:47 (7008)

2000-05-08 15:18:47# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er að sönnu rétt að nauðsynlegt er að aðstoða fólk í greiðsluvanda og reyna að hjálpa náunganum eftir því sem kostur er. En staða heimilanna er náttúrlega alltaf misjöfn en eins og kemur fram í þessari skýrslu þá eru allt of margir sem kunna ekki fótum sínum forráð. Og hver á að hjálpa þeim? Auðvitað vill samfélagið reyna það en þau ráð sem til þarf að taka þegar allt er komið í óefni eru síðan oft erfið í framkvæmd.

Ég tel að ekki sé hægt að segja eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að ríkisstjórnin hafi misst allt úr böndunum, að það sé ástæðan fyrir því að einstök heimili standa illa. Auðvitað er alveg út í bláinn að vera með slíkar fullyrðingar. Það er dálítið merkilegt að þetta skuli koma úr munni þessa hv. þm. sem stjórnaði hér á sínum tíma húsnæðismálum þjóðarinnar úr félmrn. þegar afföll af húsbréfum fóru upp í 24--25%. Níu milljarðar lágu á heimilunum í áraraðir og liggja enn að hluta til á heimilunum vegna þeirrar óráðsíu sem var í málefnum heimilanna á þeim árum. Það er náttúrlega merkilegt að hv. þm. skuli hafa sloppið jafn vel út úr þeirri umræðu og raun ber vitni.

Afföll húsbréfa á síðustu þrem, fjórum árum hafa einfaldlega verið þannig að meira hefur fengist fyrir húsbréfin, fólk hefur fengið meira en húsbréfin gáfu til kynna, þannig að afföllin hafa ekki verið í mínus eins og orðið gefur tilefni til heldur í plús upp í 8%. Heimilin sem slík, fólkið sem er að kaupa sér húsnæði í dag stendur því miklu betur en á tíma hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur meðan hún stjórnaði þessu ráðuneyti.

Herra forseti. Ég vil að lokum upplýsa að Húsnæðisstofnun ríkisins eða Íbúðalánasjóður, eins og hann heitir í dag, þar sem ég á sæti, hefur unnið að mörgum tillögum í því að reyna að leysa vanda þessa fólks og mun halda því áfram.