Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:27:40 (7012)

2000-05-08 15:27:40# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Málflutningur sjálfstæðismanna kemur ekki á óvart. Það eina sem þeir hafa til málanna að leggja hér þegar við tölum um vaxandi skuldir heimilanna, misskiptingu í kjörum fólks og bágindi fólks, er að þetta hljóti allt að vera vegna þess að fólk kunni ekki fótum sínum forráð og síðan er talað um óreglu. Ég ætla að benda þessum hv. þm. á að lesa skýrsluna sem Ráðgjafarstofa heimilanna hefur sent frá sér vegna þess að þeim er einmitt svarað í þeirri skýrslu.

Varðandi hæstv. félmrh. þá er alveg augljóst á hans orðum að úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart vaxandi skuldum heimilanna og bágum kjörum fólksins í landinu er algjört. Að vísu vottaði aðeins fyrir samviskubiti hjá hæstv. ráðherra þegar hann talaði um stöðu einstæðra foreldra og það var það eina sem kom fram í máli hans að það þyrfti að bæta stöðu þeirra. En hann talaði ekkert um hvernig.

Það er líka athyglisvert að framsóknarmenn sem töluðu um það í stjórnarandstöðunni að það þyrfti að hafa áhyggjur af skuldum heimilanna hafa ekki látið sjá sig í þessari umræðu og ekki komið hér í ræðustól heldur látið félmrh. einan um þessa umræðu. Það sýnir auðvitað að þeir hafa samviskubit og þeir mega það. Þeir mega það þessir hv. þm. Framsfl.

Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að hann svarar ekki þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar: Hvernig ætlar hann að fara með þær tillögur sem lagðar eru fram hér af ráðgjafarstofunni? Ég spyr bara um tvennt til þess að reyna að fá svör hjá ráðherranum: Hvað með neyslustaðal sem ráðgjafarstofan telur nauðsynlegt að settur verði strax? Hvað um það að grípa til fleiri úrræða hjá Íbúðalánasjóði vegna mikils greiðsluvanda heimilanna?

Hæstv. ráðherra fékk þetta á blaði og hann svarar ekki þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Og hann segir ekki eitt einasta orð um hátt fasteignaverð hér á höfuðborgarsvæðinu sem hefur hækkað um 37% og aukið verulega á verðbólguna og skuldavanda heimilanna í landinu.