Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:36:15 (7015)

2000-05-08 15:36:15# 125. lþ. 107.2 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er fráleitt að Alþingi samþykki eftir stutta umræðu um þáltill. stefnumörkun sem felur í sér markaðsvæðingu orkukerfisins á Íslandi. Ummæli hæstv. iðnrh. um þessa þáltill. og sérstaklega þennan hluta hennar voru ekki traustvekjandi. Hæstv. ráðherra fannst ekkert athugavert við þessa málsmeðferð sem stenst ekki lýðræðislegar kröfur að mínum dómi. Um allar grundvallarbreytingar á efnahagskerfinu og stoðkerfi samfélagsins þarf að fara fram ítarleg og málefnaleg umræða á Alþingi.

Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs héldu uppi slíkum málflutningi þegar þáltill. kom til umræðu en umræðunni var naumt skammtaður tími og ég tel þetta ekki vera boðlega afgreiðslu.

Við erum ekki að leggjast gegn þeirri vinnutilhögun sem felst í þáltill. En um þau efni sem ríkir ekki sátt þarf að fara fram ítarleg umræða á Alþingi. Þess vegna er eðlilegt að þessum hluta þáltill. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.