Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:37:45 (7016)

2000-05-08 15:37:45# 125. lþ. 107.2 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, viðskrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Fjallað var um tilskipun 96/92, um innri markað fyrir raforku, á fundum EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem sérstöðu Íslands var komið á framfæri. Á þeim fundum kom fram sú skoðun framkvæmdastjórnarinnar að tilskipunin ætti að gilda á öllu EES-svæðinu óháð sérstöðu einstakra ríkja.

Í ljósi þessara viðbragða framkvæmdastjórnarinnar og eftir ítarlega skoðun á málinu, þar sem leitað var umsagnar Orkustofnunar og Samorku, taldi iðnrn. eðlilegt að tilskipunin yrði felld inn í EES-samninginn með þeim fyrirvara að Ísland fengi tveggja ára aðlögunartíma til að koma tilskipuninni til framkvæmda. Var þessi afstaða samþykkt á fundi þáv. ríkisstjórnar. Í kjölfarið var unnið að málinu í samræmi við þessa stefnu. Sú stefna hefur ekkert breyst því að eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar er eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar að breyta skipulagi orkumála þannig að samkeppni verði innleidd til að auka hagkvæmni og lækka orkuverð. Ég segi nei við tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.