Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:22:19 (7023)

2000-05-08 16:22:19# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil gera að umræðuefni þær brtt. við frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leggur hér til. Ég hef örfáar athugasemdir fram að færa.

Hv. þm. leggur áherslu á að lífeyrissjóðirnir séu skilgreindir sem eign launafólks. Ég tek undir þá hugsun. Hv. þm. finnst eðlilegt að iðgjaldinu sé ekki skipt á milli launamannsins annars vegar og launagreiðandans hins vegar vegna þess að launamaðurinn eigi að njóta réttarins sem þessar iðgjaldagreiðslur skapa. Það er alveg rétt í sjálfu sér. Hins vegar má einnig líta svo á að þessi skipting á milli framlags launagreiðanda og launamanns endurspegli líka ábyrgð launagreiðandans í þessum efnum.

Varðandi þann hluta brtt. sem lúta að stjórnsýslu og hverjir sitji í stjórnum lífeyrissjóðanna þá vill hv. þm. Pétur H. Blöndal að þessar tilnefningar fari úr höndum stéttarfélaganna þar sem þær hafa verið og yfir til félagsfunda eða aðalfunda. Hv. þm. nefnir félagsfundi í brtt. sínum. Að mínu dómi yrði þetta til þess að draga úr lýðræðinu, þrengja að því. Þetta yrði ekki til að víkka það. Það kann vel að vera að ef aukin völd yrðu færð til aðalfunda eða félagsfunda þá mundu fleiri sækja þá fundi en ella. Hins vegar tel ég að miklu fleiri komi að þessum málum á virkan hátt í gegnum stéttarfélögin sem fram til þessa hafa kosið fulltrúa í stjórn.

Ég minni á að þegar lífeyrissjóðakerfið var smíðað á sínum tíma þá var það vegna baráttu verkalýðshreyfingarinnar sem beitti sér mjög hart í þessum efnum. Jafnan þegar að þessu kerfi hefur verið sótt eins og dæmi eru um á liðnum árum þá hafa stéttar- og verkalýðsfélög og heildarsamtök launafólks staðið um það vörð og jafnframt beitt sér fyrir umbótum og lagfæringum á þessu kerfi. Ég tel að þessar breytingar yrðu þrengjandi og ekki til að auka lýðræðið nema síður væri. Þær yrðu til þess að styrkja lífeyrissjóðakerfið. Verkalýðshreyfingin, stéttarfélögin og heildarsamtök launafólks finna mjög til ábyrgðar þegar lífeyriskerfið er annars vegar.

Varðandi þær upplýsingar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vill að lífeyrissjóðunum sé gert að veita sjóðfélögum, þá tel ég brtt. hv. þm. ekki til bóta. Hann vill að sjóðfélögunum verði gerð grein fyrir verðmæti áunninna réttinda þeirra hjá sjóðnum og ég skil það svo að átt sé við uppreiknuð verðmæti. Um þetta hefur nokkuð verið rætt í efh.- og viðskn. þingsins. Menn voru á því máli að að sjálfsögðu ætti að veita sem gleggstar upplýsingar en mikilvægt væri að þær væru markvissar og kæmu að gagni en væru ekki misvísandi.

Ef um það er að ræða að einstaklingi sé gerð grein fyrir því hvaða upphæð hann eigi inni í lífeyrissjóðunum þá gæti það valdið miklum misskilningi. Einstaklingur, svo dæmi sé tekið, á inni í sjóðnum ígildi 10--11 millj. kr. Hann fellur síðan frá eftir hálft ár eða eitt ár á lífeyrisgreiðslum. Þá væri mjög líklegt að erfingjar eða aðstandendur vildu leita réttar síns og koma höndum yfir þessa fjármuni sem lífeyrissjóðurinn er búinn að segja einstaklingnum að hann eigi inni. Þetta er hins vegar ekki eign hans í þeim skilningi. Eignin felst í réttindum sem hann á kröfu til, tiltekin upphæð á hverjum mánuði svo lengi sem hann lifir, örorkubótum eftir tilteknum reglum, makabótum, makinn á rétt á tilteknum greiðslum, barnabóta og þar fram eftir götunum. Að mínum dómi er eðlilegast að gera grein fyrir þeim réttindum sem sjóðfélaginn hefur unnið sér rétt til en ekki heildarupphæð sem að mínum dómi gæti verið misvísandi og er ekki til þess fallinn að varpa ljósi á stöðu mála.

Þetta eru þær athugasemdir sem ég vil gera við þessar brtt. hv. þm. Péturs H. Blöndals við frv. sem hér liggur fyrir um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.