Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:38:39 (7025)

2000-05-08 16:38:39# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ein lítil spurning til hv. þm. Péturs H. Blöndals um síðasta efnisatriðið í síðari ræðu hans um upplýsingar um þann hlut sem sjóðfélaginn á í sjóðnum. Getur hann ekki tekið undir það sjónarmið sem fram kom hjá mér í ræðu minni um brtt. hans að þetta gæti orkað tvímælis? Þetta gæti verið misvísandi og valdið misskilningi gagnvart t.d. aðstandendum fólks sem fellur frá, hefur fengið upplýsingar um að það eigi 10 millj., 15 millj. inni í lífeyrissjóðnum. Einstaklingurinn fellur frá og krafan stenst síðan ekki þegar hún er fram sett vegna þess að um er að ræða réttindi sem einstaklingurinn á, rétt til greiðslu í hverjum mánuði svo lengi sem viðkomandi lifir, rétt til makabóta, rétt til barnabóta, rétt til örorkubóta, en ekki kröfu á þá upphæð sem hv. þm. vill að upplýsingar verði gefnar um.