Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:42:39 (7028)

2000-05-08 16:42:39# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Hv. þm. situr í stjórn lífeyrissjóðs. Sem slíkur tekur hann afstöðu til tryggingafræðilegrar úttektar á sjóðnum. Þar kemur fram að tryggingafræðileg úttekt segir að skuldbindingarnar séu svo og svo mikils virði, í hans tilfelli reyndar fimm sinnum meiri en eignin. En það gerir ekkert til því að skattgreiðendur borga mismuninn.

En hann hlýtur að átta sig á því að þessi tryggingafræðilega úttekt er skuldbinding til handa sjóðfélögum hans. Hún er eign og hún er ekki lakari eign en hver önnur. Það er nefnilega þannig að þær forsendur og þær líkur sem notaðar eru til þess að reikna út tryggingafræðileg verðmæti réttinda eru dánarlíkur, sem eru mjög skotheldar, örorkulíkur sem eru reyndar fengnar frá Skandinavíu. Það er þekkt hvort maðurinn er giftur eða ekki og dánarlíkur makans eru þekktar. Þetta eru allt saman líkur sem eru miklu nákvæmari og miklu meira er vitað um en líkur sem liggja til grundvallar t.d. verðmætis hlutabréfa Landsbankans.

Það að ég vilji koma inn hugarfari fjárfestisins hjá sjóðfélögum er ekki rétt. Ég ætla að koma inn hugarfari eigandans sem þá kýs menn til þess að fylgjast með fjármálamarkaðnum eins og hv. þm. hlýtur að gera þar sem hann er í stjórn lífeyrissjóðs. Hv. þm. hlýtur að vaka og sofa yfir því hvernig verðbréfamarkaðurinn gengur daginn út og daginn inn. Annars væri hann ekki starfi sínu vaxinn því hann stendur í því að fjárfesta. Það er hlutverk hans að vaka og sofa yfir gengi hlutabréfa alla daga.