Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:53:57 (7032)

2000-05-08 16:53:57# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Verkalýðshreyfingin ver hagsmuni stjórna verkalýðsfélaganna. Það er það sem hún ver. Hún passar að völd þeirra séu óskert og ekki verði neitt hringl þannig að sjóðfélaginn fái að velja sér lífeyrissjóð.

Þetta gekk ekkert út á hagsmuni verðbréfafyrirtækja. Það gekk út á það hvort sjóðfélaginn mætti velja sér lífeyrissjóð, hvort sá sem er skyldaður með lögum til að greiða í lífeyrissjóð geti haft einhver áhrif á það hvert peningarnir færu fyrst hann fær nú ekki að kjósa stjórnina.

Mér finnst það alveg fráleitt, það er fáránlegt, að Alþingi skyldar mann til að borga í ákveðinn lífeyrissjóð en gefur honum ekki kost á því að hafa nein áhrif á stjórn þess sjóðs sem fer með þá peninga. Hann má heldur ekki velja sér annan lífeyrissjóð ef honum líkar ekki ávöxtun þess sjóðs sem hann er neyddur til að greiða til.

Ég vil benda á að ég sem þingmaður er neyddur til þess að greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins hvort sem ég vil eða ekki og það er hv. þm. Ögmundur Jónasson sem fer með ráðstöfun þess fjár. Ég hef aldrei kosið hann í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þetta er bara lítið dæmi um það í hvaða stöðu nánast allir Íslendingar eru, allir íslenskir launþegar. Þeim er gert að borga inn í einhvern lífeyrissjóð og þeir hafa lítil sem engin áhrif á það hvaða menn stjórna þeim sjóðum og hvernig þeir fara með það fé sem þeim er gert að borga í sjóðina.

Svo gerist það núna í samningunum að allt í einu eiga menn pening. Atvinnurekendur eiga pening og launþegar geta fengið pening til að borga í lífeyrissjóð, ekki til að greiða út sem laun, nei. Það er hægt að setja aukaiðgjöld inn í lífeyrissjóðina, inn í þetta samtryggingarkerfi bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. Þá er til peningur. Það er ekki hægt að borga hann út sem laun. Nei, það er hægt að borga hann í lífeyrissjóðina sem þessir aðilar fara með báðir.