Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:59:21 (7035)

2000-05-08 16:59:21# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi spurninguna um hvort atvinnurekendur eða fulltrúar þeirra eigi að eiga aðild að sjóðstjórnum lífeyrissjóðanna þá kann það að vera álitamál.

Hins vegar finnst mér mjög mikilvægt að fram komi í stjórn lífeyrissjóða sameiginleg ábyrgð þessara aðila beggja, verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og samtaka atvinnurekenda hins vegar. Ég held að það sé samfélagi okkar til góðs að treysta þá sameiginlegu sýn sem þessir aðilar hafa haft á lífeyrissjóðakerfið. Þótt ég taki undir með hv. þm. að þetta sé allt skoðunar virði þá finnst mér að við eigum ekki að gera lítið úr þessu sjónarmiði, sameiginlegri ábyrgð þessara aðila.

[17:00]

Ég held að menn eigi ekki að fara í einhvern meting um það hver hafi unnið mest að lífeyrissjóðsmálum á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar í tímans rás. Það eru mörg ártöl þar sem eru mikilvæg. Það er alveg rétt að gert var stórátak í kringum 1970 í lífeyrismálum. Innan opinbera geirans hafði í langan tíma verið lögð mjög rík áhersla á þetta. Þá ríktu ekki markaðslaun eins og er í tísku nú á síðari tímum og var lögð mjög rík áhersla á margvísleg réttindi, þar á meðal á lífeyrisréttindin sem voru um langan aldur miklu traustari og betri hjá opinbera geiranum en á almennum vinnumarkaði. En ég legg áherslu á að það er verkalýðshreyfingin í heild sinni sem hefur axlað ábyrgð í þessum efnum og staðið vörð um hagsmuni launafólks hvað þetta snertir.