Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 17:01:33 (7036)

2000-05-08 17:01:33# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[17:01]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að taka þátt í neinum metingi. Ég vildi bara minna á að flestir sjóðirnir urðu til á þeim tíma og það er þá sem helstu almennu verkalýðsfélögin fá kröfum sínum framgengt hvað þetta varðar.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að sameiginleg ábyrgð atvinnurekenda og verkalýðs á lífeyrissjóðunum sé ekki nauðsynleg. Ég skil heldur ekki hvers vegna atvinnurekendur ættu frekar að eiga ítök í þeim sjóðum sem verkalýðshreyfingin á aðild að heldur en öðrum sjóðum sem menn eru að borga í sem eru orðnir býsna margir þar sem atvinnurekendur gera engar kröfur um réttindi og eiga engin réttindi til að skipta sér af því hvað gert er við þá peninga. Samið hefur verið um verulegar háar fjárhæðir frá hendi atvinnurekenda að undanförnu sem greiðslur inn í slíka sjóði og líka frá hinu opinbera, þannig að það er þá ekki sama hver peningurinn er sem rennur þarna inn. Ég held að menn þurfi að taka þetta til umræðu og velta þessu fyrir sér. Ég endurtek að það er skoðun mín að atvinnurekendur eru eins og hverjir aðrir launagreiðendur hvað þetta varðar. Þetta er eitt af því sem þeir borga vegna starfsmanna sinna og þeir eiga ekki að hafa afskipti af þessu frekar en orlofsheimilunum eða öðru slíku sem starfsmennirnir eiga.