Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 17:52:44 (7043)

2000-05-08 17:52:44# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei verið svo svartsýnn að ætla að ólæsi væri algert þó að mér þætti það kannski dálítið mikið. Ég vil benda hv. þm. á að launastabbinn í þessu þjóðfélagi er svona kringum 300 milljarðar. Það er tiltölulega auðvelt að reikna hvað hvert prósent er þá. Það er ekki þar með sagt að það sé verðbólguhvetjandi að búa þetta til. Ég sagði ekkert um það. Það er hins vegar stórkostlega hættulegt, sagði ég, gagnvart samkeppnishæfni framleiðslunnar. Það er það sem ég óttast. Það var það sem ég var að vekja athygli á.

Þegar við stöndum núna frammi fyrir gerðum hlutum á vorþinginu þá verðum við að hugsa til þess að við megum ekki og eigum ekki að þrengja nokkurs staðar að samkeppnisstöðunni og gefa út í þjóðfélagið merki um að þetta sé allt í lagi. Það er falskt merki. Við megum ekki gefa slík merki en eigum hins vegar að einbeita okkur að því að sýna fram á að hin góðu kjör okkar í dag og hin mikla velmegun sem þetta þjóðfélag býr við byggist á því að við höldum hér jafnvægi. Hin góða staða byggist á því að við búum til starfsskilyrði fyrir framleiðsluna. Hún byggist á því að við séum samkeppnisfær við útlönd. Það versta sem kæmi fyrir launamenn og alla Íslendinga væri að íslensk framleiðsla tapaði stöðu sinni og gæti ekki staðið undir þessum kröfum. Þess vegna skiptir öllu máli að íþyngja henni ekki og vera á varðbergi gagnvart því sem kann að vera fram undan.