Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:23:27 (7053)

2000-05-08 18:23:27# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:23]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom í ræðustól og mælti nokkur áríðandi varnaðarorð. Hann sagði að fjármögnun fæðingarorlofsins væri ekki tryggð, þ.e. hún væri falin og það er rétt hjá honum. Þetta er falið þannig að gengið er á Atvinnuleysistryggingasjóð sem er ætlað að greiða atvinnuleysisbætur og ekkert annað. Ég hefði talið snyrtilegra að fæðingarorlofið væri greitt beint úr ríkissjóði.

Á endanum er það að sjálfsögðu hinn vinnandi maður sem greiðir þetta fæðingarorlof. Þannig er það á endanum og verður alltaf þannig hvort sem fyrirtækin gera það formlega með tryggingagjaldi eða menn greiða það með sköttum, iðgjaldi eða einhverju slíku. Þannig hygg ég að flestir vilji líka hafa það. Þetta er sameiginleg byrði þjóðarinnar, að koma upp nýrri kynslóð.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson spurði líka af hverju við þyrftum að láta frv. taka gildi strax en ekki t.d. í haust eða fyrir áramót. Ég spurði hins sama. Frv. hefur fengið mjög litla umræðu en í því er ákvæði um réttindi þungaðra kvenna og réttindi foreldra þegar ungbörn verða veik sem taka gildi strax. Þó ekki sé mikill kostnaðarauki í þeim fólginn þá eru þetta ákveðin réttindi sem nauðsynlegt er talið að taki gildi.

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að fjármögnun væri ekki tryggð og þetta væri ekki gott frv. vegna þess hvað það kostaði mikið. Ég verð að segja að uppeldi barna kostar hvernig sem það er greitt. Í dag er það þannig að börn fara í leikskóla eða til dagmömmu. Fyrir það greiða foreldrarnir 10--30 þús. kr., að meðaltali 20 þús. kr. hugsa ég, og sveitarfélagið greiðir allt upp í 40--50 þús. kr. á móti, að meðaltali sennilega um 30 þús. kr. Pláss á barnaheimili kostar um 60 þús. kr.

Meðallaun á Íslandi eru um 130--140 þús. og af þeim þarf að borga skatta. Þannig má segja að hvert barn á barnaheimili bindi hálfa manneskju. Það bindur hálfa manneskju við uppeldið þann tíma sem það er á barnaheimilinu. Hjón með tvö börn eru þannig í raun ekki að skila neinu viðbótarvinnuframlagi nema þau sem nýta við vinnuna sérstaka menntun eða eitthvað slíkt. Þetta er ekkert voðalega skynsamlegt og ég held að atvinnulífið hafi komist upp með að nýta ekki krafta þjóðarinnar og þjóðfélagsins eins og skyldi vegna þess kerfis sem við höfum haft.

Hvernig er þetta í reynd? Jú, konur eru frá vinnu í sex mánuði og það veldur fyrirtækjunum geysimiklu óhagræði. Það þarf að skipta um starfsmann. Það kostar sennilega 3--5 mánaðarlaun að skipta um starfsmann þannig að núverandi fæðingarorlof kostar fyrirtækin miklu meira en fram kemur beinlínis í fæðingarorlofinu. Það kostar einnig konurnar það að þær detta út af vinnumarkaðnum og eru minna metnar af því að þær kosta fyrirtækin svona mikið. Afleiðingin er sú að þjóðin nýtir sér ekki krafta helmings þjóðarinnar, þ.e. kvenna, ekki til fullnustu. Þarna finnst mér atvinnulífið bregðast. Það nýtir ekki kraftana vegna þeirra reglna sem við höfum.

Frv. sem við ræðum hér, um fæðingar- og foreldra\-orlof, mætti útfæra þannig að fyrst taki konan einhverja 1--3 mánuði eftir atvikum í orlof en síðan skipti foreldrarnir með sér 50% starfi. Þeir væru ekki endilega hjá sama fyrirtækin en væru í raun á vöktum í vinnu. Þá geta þeir, með því að taka bæði fæðingarorlof og foreldraorlof samtímis og vera í 50% starfi, verið heima í tvö og hálft ár yfir barninu. Á þeim tíma skaffa þau nokkurn veginn það sama og á 8 tímum ella. Þá eru ekki matarhlé, kannski styttri kaffihlé o.s.frv. Menn væru ekki eins þreyttir þannig að með góðri skipulagninu gæti atvinnulífið notað þessa krafta eftir sem áður. Við þyrftum ekki að binda fólk við gæslu barnanna annars staðar en á heimilunum. Þar vinna foreldrarnir eins og kunnugt er ókeypis. Foreldrarnir væru alltaf hjá barninu sínu upp að tveggja og hálfs árs aldri sem væri ótvírætt hagur barnsins, litla borgarans.

Ég hygg að þau varnaðarorð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um að þetta kosti séu ekki alls kostar rétt. Þetta er krafa um meiri arðsemi og skipulagningu í þjóðfélaginu, um að nýta vinnuna betur. Nú eykst stöðugt krafan um það að nýta framleiðsluþættina betur í samkeppni. Með þessu eykst krafan um það. Með skynsamlegri skipulagningu og skynsamlegri ráðstöfun gætu fyrirtækin tekið þetta á sig án þess að það kostaði einhver lifandis býsn.

[18:30]

Ég hygg að með ýtrustu skipulagningu gætu sveitarfélögin, með því að þörf fyrir barnaheimili minnkar, sparað sér 1,5--2 milljarða á ári. Það kemur hvergi fram í umsögnum um frv. Foreldrarnir sjálfir spara sér 20 þús. kall á mánuði, það kemur heldur ekki fram. Þannig að 80% sem verið er að borga eru jafnvel rífleg ef maður tekur tillit til þessa. Þegar allt er skoðað gæti þetta frv. komið þannig út að það kosti ekki voðalega mikið. Það sparar nefnilega svo mikið annars staðar. Ef fyrirtækin einbeita sér að því að taka upp sveigjanlegri vinnutíma og vinnuumhverfi, fjarvinnslu, heimavinnslu og annað slíkt, þar sem foreldrarnir gætu að sjálfsögðu verið heima og unnið en jafnframt verið hjá börnum sínum, þá gæti þetta hreinlega orðið hagnaður fyrir atvinnulífið.

Ég vil taka það fram að þau ákvæði frv. sem kosta mest taka gildi í þrepum. Hver segir að þenslan standi yfir næstu 4--5 ár? Það getur verið ágætt að koma með þensluhvetjandi frv. þegar þenslan er á afturhaldi og við tekur stöðnun.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um misnotkun á kerfinu. Hana er sjálfsagt að ræða ítarlega og menn eiga að gera það vegna þess að misnotkun holar og skemmir öll velferðarkerfi sem við búum til. Það sem maður sér kannski helst fyrir sér, sem er misnotkun eða ekki misnotkun, væru t.d. sjómenn á frystitogurum sem fara bara annan hvern túr. Þeir eru í landi hálft árið, þá gjarnan þannig að þeir eru einn túr úti á sjó og síðan einn túr í landi. Taki þeir fæðingarorlof þann tíma sem þeir eru í landi þá fá þeir þessa greiðslu, jafnvel háa upphæð, 400--500 þúsund kall á mánuði, fyrir nákvæmlega sömu stöðu og var áður. Þessu þurfa menn að átta sig á. Auðvitað má segja að þessir menn sinni mjög harðri vinnu þann tíma sem þeir hafa verið á sjó og séu að bæta á sig vinnu á heimilunum. Það má færa þau rök fyrir því líka. En þetta eru dæmi sem menn þurfa að átta sig á.

Svo er líka möguleiki, eins og bent hefur verið á, að menn gætu sótt um fæðingarorlof, það fellur niður ef karlmaðurinn sækir ekki um það, en haldið áfram að vinna. Þetta er þekkt misnotkun sem menn þurfa að átta sig á. Það hefði verið betra ef menn hefðu haft eilítið meiri tíma til þess að ræða einmitt hvernig hægt er að halda slíkri misnotkun í lágmarki. Eins og ég segi: Misnotkun grefur undan öllum góðum velferðarkerfum og gerir það ókleift að veita þær bætur sem menn kannski vildu veita. Í því sambandi nefni ég sérstaklega örorkulífeyrinn.

Þetta frv. er þess eðlis að ég styð það, herra forseti. Ég tel að það sé til bóta. Það hefði verið skemmtilegra að menn hefðu tekið betur á fjármögnuninni því það kostar. Það hefði verið betra að glöggva sig betur á þeim sparnaði sem frv. hefur í för með sér fyrir þjóðfélagið. Staðan er sú í dag að það kostar hálfa manneskju að hafa barn á barnaheimili, bara yfir dagvinnutímann. Hafi foreldrar tvö börn á barnaheimili þá er enginn þjóðfélagslegur sparnaður af því. Af því verður ekki nein framleiðni því að það kostar jafnmikla vinnu að gæta barnanna beggja og sú vinna gefur af sér sem foreldrarnir sinna í atvinnulífinu.