Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:34:36 (7054)

2000-05-08 18:34:36# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að mörgu leyti merkilegt erindi. Mig langar þó aðeins að leiðrétta hugtakanotkun hans þegar hann ræðir um barnaheimili, eins og hann orðar það. Þetta heitir í dag leikskóli og það skiptir miklu máli fyrir sérhvert barn að komast í leikskóla og njóta þess uppeldis sem þar fer fram. Leikskólar eru merkilegar menntastofnanir og mjög góðar yfirleitt hér á Íslandi. Ég vildi ekki að barnið mitt, jafnvel þó ég væri heimavinnandi, færi á mis við að vera í leikskóla.

Hv. þm. talaði um að af því kynni að verða mikill þjóðfélagslegur sparnaður að foreldrar skipulegðu vinnu sína þannig að börnin þyrftu ekki, eins og hann orðaði það, á barnaheimlisplássi að halda. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Ég held að það sé mikill þjóðfélagslegur sparnaður og ávinningur af því að öll börn geti notið þess að vera í leikskóla.