Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:46:04 (7061)

2000-05-08 18:46:04# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en einungis að þakka hv. félmn. fyrir góð og fumlaus vinnubrögð við afgreiðslu þessa máls þrátt fyrir nauman tíma. Ég þakka sérstaklega fyrir ítarlegt nefndarálit sem nefndin lætur fylgja og ég tel að þær hugleiðingar sem þar koma fram séu réttmætar og þær hugmyndir og ábendingar verða teknar til athugunar.

Það er rækilega gengið frá fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs og það er mikill misskilningur ef því er haldið fram að verið sé að auka álögur á atvinnulífið frá því sem nú er. Það er einungis verið að ráðstafa álögum öðruvísi en gert hefur verið, þ.e. að hluti af því tryggingagjaldi sem hefur gengið til Atvinnuleysistryggingasjóðs kemur til með að fjármagna Fæðingarorlofssjóð. Þetta var loforð sem ríkisstjórnin gaf í aðdraganda síðustu kjarasamninga eða yfirstandandi kjarasamninga. Við gáfum fyrirheit á fundi með forsvarsmönnum Flóabandalagsins um að taka þetta mál til athugunar.

Tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs voru á síðasta ári eitthvað í kringum 5 milljarðar kr. Gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa mest orðið á ári innan við 3 milljarðar kr., þegar atvinnuleysi var hér milli 6% og 7%. Það er því borð fyrir báru í Atvinnuleysistryggingasjóði. Það hefði auðvitað verið hægt --- ég er ekki að gera lítið úr þeim byrðum sem atvinnulífið ber af þessu fæðingarorlofi --- að skila þessum peningum sem nú er verið að setja í Fæðingarorlofssjóðinn aftur til atvinnulífsins. En ég held að þeim sé skynsamlegar varið svona.

Það er nauðsynlegt að þessi lög taki gildi og hluti af þeim strax vegna þess að foreldraorlofið þarf að taka gildi strax. Jafnframt þarf að fara að huga að fjármögnun sjóðsins. Hér er um stórkostlegt velferðarmál fyrir börnin að ræða. Þetta er mjög mikilvægt fjölskyldumál sem við erum að afgreiða hér og afar stórt skref í jafnréttismálum. Og eins og formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og formaður þingflokks vinstri grænna, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sagði réttilega hér í umræðum fyrr í dag þá skipar þetta mál okkur í forustu ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.