Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:49:40 (7062)

2000-05-08 18:49:40# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:49]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að lýsa yfir vonbrigðum mínum með fráleitar reikningsaðferðir hæstv. félmrh.

Launastabbi Íslands er 300 milljarðar kr., þ.e. hvert prósent er þá þrír milljarðar kr. Það að taka úr Atvinnuleysistryggingasjóði 0,35--0,38% og ætla þannig að fjármagna hluta af þessu er náttúrlega bara barbabrella. Hin viðbótin sem á að koma árunum á eftir, 2002 og 2003, er í kringum 2.000 millj. kr. En ég veit að í útreikningum félmrn. er gert ráð fyrir því að mínusa þetta við 500 millj. kr. vegna betri innheimtu. Ég hef ekki tekið mark á svoleiðis reikningi vegna þess að það þýðir ekkert að koma með útgjaldaaukningu hér og segja: ,,Við ætlum að hafa betri skattinnheimtu og þess vegna er þetta ekki útgjaldaaukning.`` Það er ekkert hægt að segja svona.

Þetta er útgjaldaaukning í heild sinni á atvinnulífið upp á tæpa þrjá milljarða, 2.800--2.700 millj. kr. eftir því hvernig við reiknum það. Og það verður ekkert undan því vikist. Atvinnuleysistryggingasjóður hafði sín markmið og sínar skyldur og það er viðhorf aðila vinnumarkaðarins sem hefur komið hér fram áður að þó að dragi úr atvinnuleysi þá væri rétt að eiga borð fyrir báru og safna í sjóðinn. Það gefur engum rétt til þess að ætla að nota sömu peningana tvisvar. Það hefur aldrei tekist og verður ekki gert.