Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:55:00 (7065)

2000-05-08 18:55:00# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er fyllilega ljóst að ekki er hægt að nota sömu krónuna tvisvar og það er ekki hugmyndin að gera það hér. Það er verið að ráðstafa peningum öðruvísi heldur en gert hefur verið. Peningarnir ganga ekki allir í Atvinnuleysistryggingasjóð heldur gengur hluti af þeim peningum sem atvinnulífið hefur reitt af hendi í Fæðingarorlofssjóð í staðinn fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð vegna þess að Atvinnuleysistryggingasjóður þarf ekki á þeim að halda.

Það væri út af fyrir sig hægt, og hefði verið önnur aðferð, að skila atvinnulífinu þessum peningum, létta gjöldum af atvinnulífinu. Það er sjónarmið út af fyrir sig og ég hygg að hv. þm. hefði verið fylgjandi því. Atvinnuleysi er sem betur fer ekkert nú og ekki alveg á næsta leyti að því er maður best fær séð, a.m.k. getum við ekki rekið íslenskt atvinnulíf öðruvísi en með stórfelldum innflutningi fólks til þess að vinna þau störf sem þarf að vinna til að halda atvinnulífinu gangandi. Nú er atvinnuleysið innan við 2% og hér eru milli sex og sjö þúsund verkamenn, erlendir ríkisborgarar, að störfum.