Sóttvarnalög

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:57:02 (7066)

2000-05-08 18:57:02# 125. lþ. 108.24 fundur 490. mál: #A sóttvarnalög# (samstarfsnefnd, kostnaður o.fl.) frv. 90/2000, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:57]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. heilbr.- og trn., um frv. um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið nokkra gesti á sinn fund og jafnframt fengið ýmsar umsagnir frá ýmsum þeim aðilum sem nefndir eru í frv. og fleirum.

Frumvarp þetta var m.a. samið til að bregðast við tillögum nefndar sem umhverfisráðherra skipaði til að kanna framkvæmd mála vegna útbreiðslu kampýlóbakter. Tillögurnar felast fyrst og fremst í breytingum til að tryggja að gripið verði til samræmdra aðgerða þegar hætta er talin á útbreiðslu smitnæmra sjúkdóma sem ógnað geta heilsu manna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipi í þessum tilgangi sérstaka samstarfsnefnd sem hafi það hlutverk að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með aðgerðum svo að hægt sé að meta og uppræta smithættu. Samkvæmt frumvarpinu skal nefndin hafa aðgang að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og geti hún fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Nefndin tæki til starfa þegar neyðarástand skapaðist og hefði víðtækar heimildir til að tryggja markviss viðbrögð þegar grípa þarf til samræmdra aðgerða. Lagt er til að nefndin verði skipuð þremur mönnum, sóttvarnalækni, sem verði jafnframt formaður nefndarinnar, einum manni tilnefndum af Hollustuvernd ríkisins og öðrum tilnefndum af yfirdýralækni.

Þá er í frumvarpinu kveðið skýrar á um ábyrgð sóttvarnalæknis en í núgildandi lögum og um kostnað við framkvæmd sóttvarnalaga og greiðsluhlutdeild sjúklinga. Gert er ráð fyrir að heimilt verði með reglugerð að veita undanþágur frá greiðsluhlutdeild sjúklinga, sbr. 5. gr. frv.

Samkvæmt 4. gr. verður heimilt að setja reglugerð um að fólk sem kemur til landsins skuli sæta læknisrannsókn ef tilmæli berast um það frá sóttvarnalækni og hann telur að slíkt sé nauðsynlegt til að hindra útbreiðslu næmra sótta sem ógnað geta almannaheill. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu hefur skapast sú vinnuregla hjá Útlendingaeftirlitinu að krefja þá sem ekki eru af Evrópska efnahagssvæðinu og sækja um dvalarleyfi, hæli og/eða atvinnuleyfi hér um heilbrigðisvottorð áður en umsókn er yfirfarin. Þess hefur verið krafist að vottorðið sé nýlegt og gefið út af íslenskum lækni. Til þessa hefur Útlendingaeftirlitið stuðst við tilmæli og dreifibréf frá landlæknisembættinu í þessum málum. Engin skýr lagaheimild hefur verið fyrir slíkri kröfu. Nái framangreindar breytingar frumvarpsins fram að ganga mun Útlendingaeftirlitið framvegis starfa, með tilliti til sóttvarna, á grundvelli reglugerða sem settar verða með stoð í 14. gr. laganna. Í 4. gr. er ekki gerður greinarmunur á því hvort fólk kemur til landsins frá ríkjum innan eða utan EES. Nú þegar gilda hins vegar ákveðnar reglur um þá sem eru frá ríkjum innan EES, samkvæmt EES-samningnum og ESB-tilskipunum sem hafa verið teknar inn í samninginn. Af þeirri ástæðu miðast reglugerðarheimild þessi við þá sem koma frá ríkjum utan EES. Í nefndum reglugerðum verður kveðið á um hverjir þurfi að sæta læknisrannsókn og um hvers konar rannsóknir sé að ræða, byggt á upplýsingum um tiltekin lönd eða landsvæði og næmum sóttum sem þar hefur orðið vart.

[19:00]

Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þskj. en þær eru þessar:

Að gerð verði orðalagsbreyting á 1. gr. og nefndin leggur til að við upptalningu í 2. gr. frv. verði bætt orðinu ,,starf\-semi``. Breytingin þykir vera til frekari skýringar á ákvæðinu en nauðsynlegt er að sóttvarnalæknir geti gripið inn í starfsemi sem getur stuðlað að dreifingu á ýmsum smitnæmum sjúkdómum og hér undir geta t.d. fallið snyrtistofur, húðflúrstofur og læknastofur.

Jafnframt er gerð tillaga um að orðið ,,hópar`` í 4. gr. frv. falli brott. Þegar frv. var lagt fram var ætlunin með því að tala um hópa sú að draga fram að umræddum reglugerðum væri ætlað að ná almennt til fólks sem kemur til landsins en frá tilteknum löndum eða landsvæðum þar sem næmra sótta hefur orðið vart en að reglugerðunum væri ekki ætlað að beinast að tilteknum einstaklingum. Nefndin telur orðið ,,hópa`` í ákvæðinu geta valdið misskilningi um tilgang og markmið ákvæðisins og bjóða jafnframt upp á of þrönga túlkun og leggur því til framangreinda breytingu.

Loks er lögð er til breyting á 18. gr. laganna þannig að kveðið verði á um heimild ráðherra til setningar reglugerðar um læknisrannsóknir eftir tilmælum sóttvarnalæknis skv. 14. gr. laganna.

Herra forseti. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir og gerð er tillaga um á þskj. 1168.

Ásta Möller og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir þetta rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, Katrín Fjeldsted, Bryndís Hlöðversdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Tómas Ingi Olrich og Jón Kristjánsson.