Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 19:19:38 (7068)

2000-05-08 19:19:38# 125. lþ. 108.9 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[19:19]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mun gera grein fyrir þeim brtt. sem ég og hv. þm. Kristján L. Möller höfum lagt fram. Ég vil byrja á því að hrósa mjög góðri vinnu í félmn. þegar við fórum yfir þetta frv. Gríðarlega margir gestir komu á fundinn og umræður voru mjög frjóar. Ekki má heldur gleyma því að hér er um þverpóltískt mál að ræða, ekki ósvipað því máli sem við ræddum hér á undan, um fæðingar- og foreldraorlof.

Eins og kemur fram undirrituðum við hv. þm. Kristján L. Möller nál. með fyrirvara og áskiljum við okkur rétt til að styðja og leggja fram brtt. eins og hv. formaður nefndarinnar nefndi áðan.

Það er tvennt í nál. sem ég vil gera athugasemd við. Það er m.a. það sem fram kemur um stefnuna í byggðamálum sem var samþykkt á 123. þingi. Það sem ég gagnrýndi var að það gæti verið mjög viðkvæmt að koma með þetta núna jafnhliða því nýja frv. sem er að koma fram og líka að þetta var ekki rætt sérstaklega í nefndinni.

Þá vil ég jafnframt geta þess sem lýtur að brtt. frá mér og hv. þm. Kristjáni L. Möller. Við lögðum mjög mikla áherslu á að reyna að fá BHM inn í Jafnréttisráðið. Við töldum að ekki væri vanþörf á slíku þar sem flest kærumál varða þann hóp. Ég vil, herra forseti, aðeins fara yfir þær brtt. sem við leggjum fram.

Þá er fyrst að telja brtt. við 3. gr. sem er um Skrifstofu jafnréttismála. Þar er tillaga um að bæta við tveimur liðum:

,,Við 3. gr. Við 3. mgr. bætist tveir nýir liðir sem verði i- og j-liðir, svohljóðandi:

i. leita sátta milli einstaklinga og hópa annars vegar og fyrirtækja eða einstaklinga hins vegar í ágreiningsmálum sem skrifstofunni berast og varða ákvæði laga þessara.``

Það varð mjög mikil umræða um það í nefndinni að í öllum þessum pakka væri hvergi hægt að leita sátta. Það væri í sjálfu sér ekki eðlilegt og það væri eitt af hlutverkum Jafnréttisstofu að taka á því. Það var ekki sátt um þetta í nefndinni þannig að við ákváðum að koma sérstaklega með þessa tillögu. Seinni liðurinn er svohljóðandi:

,,j. veita kæranda aðstoð við meðferð máls hjá úrskurðarnefnd, óski hann þess.``

Hér tala ég um úrskurðarnefnd þar sem við erum með tillögu um að kærunefndin breytist í úrskurðarnefnd, eins og var í fyrra frv. Það er mjög mikilvægt og ég held að þetta hafi frekar verið yfirsjón hjá okkur í nefndinni vegna þess að ég kom ekki með þessa tillögu inn fyrr en eftir að málinu var í raun lokið hjá nefndinni. Það er nefnilega svo, herra forseti, að þegar konur kæra --- það eru oftast konur sem kæra út af jafnréttismálum --- þá er það svo að fyrirtækin, sem verið er að kæra eða agnúast út í, eru í flestöllum tilfellum með heilan flokk af lögfræðingum. Hins vegar þarf það ekki endilega að vera svo með konurnar þó svo að stéttarfélög eða aðrir leggi þeim það kannski til. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar svo ber við að þá geti nefndin aðstoðað við meðferð málsins.

Síðan er það 4. gr. Við komum í rauninni með nýja tillögu um úrskurðarnefnd eins og ég sagði frá áðan, sem var í fyrra frv. og við styðjumst við sömu rök og áður. Ég vil líka minna á að Jafnréttisráð mælir með þessu, BSRB mælir með því og líka karlanefndin. Það eru því mjög margir á því að þetta ætti að verða úrskurðarnefnd og ég minni t.d. á úrskurðarnefnd í fæðingarorlofsmálum. Um þetta er bara ágreiningur þannig að við sjáum til þegar atkvæði verða greidd um þetta mál.

Við 5. gr. bætist við ný málsgrein. Það er einmitt að gefa úrskurðarnefndinni, og hefði þá kannski átt að vera kærunefndinni, tækifæri til að senda málið til sáttameðferðar. Mjög mikilvægt er að við sjáum inni einhverja sáttameðferð og gert er ráð fyrir henni á tveimur stöðum. Ekki á að þurfa að fara með öll mál stál í stál og fyrir héraðsdóma eða slíkt.

Síðan er tillaga um að á eftir 5. gr. komi ný grein sem hljóði svo ásamt fyrirsögn:

,,Viðmið við mat á hæfni.

Við mat á því hvort ákvæði 24. og 25. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.

Þetta var í fyrri lögum og hefur líka verið í þeim lögum sem núna eru og ég get ekki séð hvernig þessar nefndir eiga að vinna nema það sé einhvers staðar gert ráð fyrir einhverju viðmiði í þessum lögum.

Við 7. gr. um Jafnréttisráð. Það sem við gerðum í nefndinni var að við fjölguðum í Jafnréttisráði upp í níu. Ég og hv. þm. Kristján Möller lögðum mjög mikla áherslu á að BHM fengi þarna aðkomu vegna eðlis þeirra mála sem tengjast þá líka kærunefnd eða úrskurðarnefnd. Við erum þá búin að hækka þetta upp í ellefu og setja þá fulltrúa frá Jafnréttisstofu inn sem einn af nefndarmönnunum og þar með kemur algjör tenging á milli Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs vegna þeirra verkefna líka sem sett eru á Jafnréttisráð.

Síðan erum við með viðbótartillögu við 8. gr. um hlutverk Jafnréttisráðs. Þar bætist við nýr málsliður, svohljóðandi, þetta var líka atriði sem ég held að við gætum alveg orðið sammála um og það er að:

Jafnréttisráð skal standa fyrir málþingum og annarri opinni umræðu um jafnréttismál í samstarfi við Jafnréttisstofu og jafnréttisnefndir sveitarfélaganna.

Heilmikil umræða var í nefndinni um af hverju jafnréttisþingið var tekið út. Það hefur ekki verið alfarið mikil ánægja með jafnréttisþingið og konum hefur ekki fundist það þjóna alveg tilgangi sínum. En þá fannst mér heldur ekki vera hægt að hverfa algjörlega frá því að setja einhverjar skyldur á Jafnréttisráð um að vera með málstofur og eitthvað minna til þess að tengja saman alla þá þræði sem eru í frv. og þess vegna er búið að bæta tillögunni við.

Í 7. gr. brtt. er brtt. við 20. gr. frv. um að þar sem tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefna tvo, konu og karl til setu í Jafnréttisráði.

Þetta tengist 20. gr. Það er eiginlega mjög sérstakt að þetta skuli vera krafa sem er einungis sett á Jafnréttisráð og ég get ekki séð hvernig kvennasamtökin eiga að geta gætt jafnræðis. Ég er eiginlega með tillögu um að tekin sé út þessi brtt. við 20. gr. þar sem er inni líka ákveðið sólarlagsákvæði og margir aðilar þekkja og var í fyrra frv. Brtt. okkar við 20. gr. er sú að greinin orðist svo ásamt fyrirsögn: ,,Þátttaka í ráðum og nefndum á vegum hins opinbera.

Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis og sveitarfélaga skal hlutfall kynja vera sem jafnast þar sem því verður við komið.``

Þetta mundi þá auðvitað að sjálfsögðu eiga við Jafnréttisráð.

,,Þar sem tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna tvo, konu og karl. Við skipun skal þess síðan gætt að skipting milli kynja sé sem jöfnust.

Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. ef illmögulegt er að framfylgja þeim af sérstökum ástæðum. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.``

Þarna á t.d. við um kvennafélögin og þar af leiðandi er lokamálsgrein brtt. okkar við 20. gr. svohljóðandi:

,,Ákvæði 2. og 3. mgr. fellur sjálfkrafa úr gildi að liðnum tíu árum frá gildistöku laga þessara.``

Við erum að tala þarna um ákveðið sólarlagsákvæði um að slíkt megi vel við una og þetta var líka í fyrra frv.

Ég vil gjarnan að það komi fram að það var gríðarlega skemmtileg og frjó og lífleg umræða um þessi mál í nefndinni. Eins og ég sagði áður þá vorum við sátt við að undirrita þetta með fyrirvara og þá fyrst og fremst líka að koma með brtt. frá okkur.