Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:30:28 (7073)

2000-05-08 20:30:28# 125. lþ. 108.25 fundur 556. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (hreindýr) frv. 100/2000, Frsm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:30]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Frv. fjallar um veiðar á hreindýrum, hreindýrastofninn sérstaklega, og um þá nefnd sem ætlunin er að hafi með höndum vöktun þar að lútandi. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir því hvernig fara skuli með rannsóknir í framhaldi af vettvangsrannsóknum á hreindýrum.

Í frv. er gert ráð fyrir að umhvrh. geti heimilað veiðar úr hreindýrastofninum, telji veiðistjóraembættið að stofninn þoli veiði, og ákveðið hversu mikið skuli úr honum veiða. Umhvrh. skipar einnig fimm menn í hreindýraráð til fjögurra ára. Í þessu ráði eiga að vera fulltrúi ráðherra sem skipaður er af honum án tilnefningar en síðan aðrir frá Búnaðarsambandi Austurlands, Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu og Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, en þessir aðilar tilnefna hver um sig einn aðila.

Í frv. var gert ráð fyrir því að Náttúrustofa Austurlands tilnefndi einn aðila í hreindýraráðið enda færi veiðistjóri með vöktun og rannsóknir og stjórn þeirra mála.

Þær brtt. sem umhvn. hefur gert eru hins vegar á þann veg að snúa þarna verkefnum til annarrar áttar eða hafa þarna skipti á verkefnum þar sem umhvn. hefur orðið sammála um að leggja til að Náttúrustofa Austurlands annist rannsóknir og vöktun en veiðistjóraembættið tilnefni einn mann í hreindýraráðið og sé hann þá líffræðingur eða hafi aðra sambærilega menntun. Það er ekki eðlilegt að Náttúrustofa Austurlands fari bæði með rannsóknirnar og vöktunina og eigi mann í stjórn. Því er brugðið á það ráð sem hér var gerð grein fyrir.

Þetta eru meginatriði þess sem hér um ræðir. Umræður í nefndinni voru allnokkrar og urðu nefndarmenn sammála um þessa niðurstöðu og mæli ég með samþykkt frv.