Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:35:12 (7075)

2000-05-08 20:35:12# 125. lþ. 108.36 fundur 635. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (hættumatsnefnd) frv. 71/2000, Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:35]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. og nál. frá umhvn. um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Í meginatriðum fjallar frv., sem umhvn. hefur orðið sammála um að flytja, um að sveitarstjórnir í sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni skuli láta meta hættu af ofanflóðum. Enn fremur fjallar frv. um beiðni sveitarstjórnar um gerð hættumats og skal hún berast umhvrh. og skipar hann fjögurra manna nefnd sem stýrir gerð hættumats í viðkomandi sveitarfélagi og er sú nefnd kölluð í þessu frv. hættumatsnefnd.

Svo háttar til að hættumatsnefnd sú sem mælt er fyrir um í frv. þarf sterkari lagastoð en ella hefði orðið, en fram til þessa hefur verið gert ráð fyrir því að hættumatsnefndin fengi eingöngu stoð í reglugerð. Hér er um svo veigamikið, vandasamt og ábyrgðarmikið starf að ræða að ekki þykir annað fært en að slík hættumatsnefnd hafi stoð í lögum. Því hefur nefndin orðið sammála um að flytja þetta frv. sem hér hefur verið gerð grein fyrir og mæli ég með samþykkt þess.