Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:37:54 (7076)

2000-05-08 20:37:54# 125. lþ. 108.30 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:37]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, 524. mál, ásamt brtt. frá hv. iðnn.

Nefndin hefur fjallað nokkuð ítarlega um málið og fengið fjölmarga gesti á sinn fund og frá þeim er greint í nefndarálitinu.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um heimild iðnaðarráðherra til að ákveða eða gera samninga um endurgjald fyrir hagnýtingu auðlinda hafsbotnsins innan íslenskrar lögsögu.

Nefndin lítur svo á að sú heimild sem iðnaðarráðherra er fengin með ákvæðum frumvarpsins sé til þess fallin að koma á samræmi milli reglna um meðferð og nýtingu auðlinda Íslands, en í þjóðlendulögum er að finna ákvæði um heimild forsætisráðherra eða sveitarstjórnar eftir atvikum til að ákvarða eða semja um endurgjald fyrir þá nýtingu réttinda sem heimiluð er samkvæmt lögunum.

Herra forseti. Nefndin bendir á að með ákvæðum frumvarpsins er réttur þeirra sem nú hafa leyfi til leitar og hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni ekki skertur að neinu leyti. Þeim aðilum er frjálst að sækja um leyfi á ný og eðlilegt að það verði veitt að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í frumvarpinu.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Að hluta er um að ræða orðalagsbreytingar, en lagðar eru til eftirfarandi efnisbreytingar sem kynntar eru á þskj. 1158:

1. Lagt er til að netlög í stöðuvatni verði ekki skilgreind sérstaklega þar sem frumvarpið tekur eingöngu til hafsbotnins og því aðeins þörf á að skilgreina netlög í sjó.

2. Lagt er til að möguleikar til ráðstöfunar tekna af leyfum sem ráðherra veitir samkvæmt frumvarpinu verði þrengdir þannig að þeim skuli að jafnaði varið til hafsbotns- og landgrunnsrannsókna.

3. Tillaga er gerð um að bætt verði við 4. gr. laganna nýrri málsgrein þess efnis að við veitingu leyfa samkvæmt lögunum skuli gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum.

4. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir sem þegar hafa leyfi til leitar og hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni haldi þeim í tvö ár frá gildistöku laganna. Sanngirnisrök þykja mæla með því að þessi frestur verði framlengdur í fimm ár.

Herra forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 1158.

Undir þetta nefndarálit rita auk formanns, Hjálmars Árnasonar, Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Drífa Hjartardóttir, Árni Steinar Jóhannsson og Árni Ragnar Árnason ásamt þeim hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur, en þær tvær síðasttöldu rita þó undir það með fyrirvara.