Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:44:16 (7078)

2000-05-08 20:44:16# 125. lþ. 108.30 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:44]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það sem hér er til umfjöllunar, frv. til laga um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73 18. maí 1990, er að mínu mati þarft mál. Iðnn. hefur farið mjög ítarlega yfir málið og hér er sem sagt fætt nefndarálit sem ég styð. Ég tel mjög mikilvægt að það sé undirstrikað að auðlindir á hafsbotni séu sameign þjóðarinnar. Ég styð því frv. og vil láta það koma fram.

[20:45]

En það er annað sem ég vil líka láta koma fram. Iðnrh. hefur greint frá því að á leiðinni sé lagafrv. um olíu- og gasvinnslu á hafsbotninum. Að mínu mati hefði verið heppilegra að taka þetta frv. samhliða væntanlegu frv. til laga um olíuvinnslu og gasvinnslu á hafsbotninum. Ég held að við hefðum fengið vandaðri vinnu út úr því að fjalla um slík mál samhliða. Þó að gasvinnsla og olíuvinnsla sé ekki hafin er mjög mikilvægt þetta haldist að vissu leyti í hendur, t.d. hvað varðar rannsóknaþáttinn.

Að mínu mati er það kannski merkast í frv. að væntanlegt afgjald af þessum auðlindum skuli eiga að nota til að stunda frekari rannsóknir á hafsbotninum. Það er deginum ljósara að rannsóknaþátturinn er mikilvægur og við erum mjög skammt á veg komin varðandi rannsóknir á hafsbotninum og þurfum sannarlega á fjármunum að halda til þess að rannsaka, ekki bara malarefni eða skeljasand eins og fram hefur komið, heldur ekki síður möguleika okkar varðandi gasvinnslu og olíuvinnslu norðan við land. Við gerum okkur öll grein fyrir því að þar er öll rannsóknastarfsemi mjög skammt á veg komin.

Ég vil bara láta koma fram að ég styð þetta frv. um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins og tel þetta mikilvægt mál þó svo að forminu til hefði ég viljað taka þetta mál samhliða væntanlegum lögum um olíu- og gasvinnslu á landgrunninu.