Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:54:16 (7082)

2000-05-08 20:54:16# 125. lþ. 108.27 fundur 559. mál: #A meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög# (nálgunarbann) frv. 94/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:54]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er um margt um mjög athyglisvert frv. að ræða sem er breyting á lögunum um meðferð opinberra mála, svokallað nálgunarbann.

Við vorum öll sammála um það í nefndinni að þetta væri eitt af þeim málum sem við vildum gjarnan sjá í framkvæmd sem allra fyrst ekki hvað síst vegna þess að þarna er verið að bæta stöðu brotaþola. Lög af þessu tagi eru líka fyrirbyggjandi að ákveðnu leyti.

Talsverðar umræður urðu í nefndinni um ýmsa þætti frv., bæði um skilyrðin og hver metur nálgunarbannið og að fólk hafði áhyggjur af þeim sem verður fyrir nálgunarbanninu og mikið hugsað um rétt hans. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að líka sé kominn tími til að skoða skerðingu á frelsi hjá þeim sem verður fyrir ofsóknum og það er akkúrat það sem verið er að gera með þessu, því það er líka skerðing á frelsi að verða stöðugt fyrir ógnunum af hálfu t.d. fyrrverandi sambýlismanna eða eiginmanna. Þetta á auðvitað ekki bara við um slík mál, þetta getur átt við um ágreining á milli jarðeigenda, ýmislegt varðandi húseignir og annað í þeim dúr.

En óræk merki þurfa að vera um ofsóknir og að málin séu skýr og ótvíræð, það skiptir meginmáli. Í þeim málum sem við vitum að þessu yrði kannski beitt fyrst og fremst, þ.e. í málum sem snúa að konum og börnum, þá held ég að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að málin verði ekki skýr og ótvíræð í þeim tilvikum. Það kemur líka fram í ákveðinni grein að sá sem nálgunarbanni sætir er upplýstur á öllum stigum málsins.

Þegar Stígamót voru í heimsókn hjá nefndinni kom fram í framhaldi af þeirri umræðu og því sem hefur áður borist í tal hér í þinginu hvort kannski kæmi að því að við mundum gera eins og Austurríkismenn, þ.e. að setja bann varðandi heimilisofbeldi og að fjarlægja megi mann af heimili. Frumvarpið tekur auðvitað ekki á því, enda þyrfti slíkt meiri umræðu en ég veit að vilji er til þess að ræða þau mál í víðara samhengi. En þetta nálgunarbann er svo sannarlega þróun í rétta átt til að tryggja og bæta stöðu brotaþola.