Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:16:13 (7089)

2000-05-08 21:16:13# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:16]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því að hér sé farið af stað með galgopahætti og síðan eigi bara að sjá til. Hér er um afskaplega vandaða lagasetningu að ræða. Með frv. sem við erum að ræða núna er vandað enn betur til verka og komið til móts m.a. við kröfur bænda um málsmeðferð og málsmeðferðarkostnað. Ég vil því meina það að þetta sé hið besta mál.

Það er mikilvægt að skera úr um eignarmörk landa, þau eru óljós. Það eru engar skýrar línur og nákvæmar til þar sem allir geta verið á eitt sáttir þegar talað er, m.a. um afrétt og afréttarlönd. Þess vegna var nauðsynlegt að fara út í þessa kröfugerð.

Ég hef sagt það hér í ræðustól á hinu háa Alþingi að mér finnst margt umdeilanlegt í kröfugerð ríkisins. Hins vegar er það ekki mitt að úrskurða um það, það er óbyggðanefndar. Á sumum stöðum getur verið að ríkið hafi seilst of langt og á öðrum stöðum of skammt að einhvers mati. En ég segi enn og aftur: Ef menn telja kröfugerð ríkisins í þessum þjóðlendumálum vitlausa þá hafa menn ekkert að óttast því við höfum afskaplega hæfa og mikilsmetna menn í óbyggðanefnd. Þeir koma til með að úrskurða um þetta mikilsverða mál.