Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:33:05 (7093)

2000-05-08 21:33:05# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls kom fram að aftur og aftur á liðnum áratugum hefði kröfum um úrskurð um landamörk verið vísað til dómstóla og ítrekað hefðu dómstólar vísað slíkum úrskurðum frá vegna þess að þeir hefðu ekki forsendur til að dæma og að Alþingi yrði að taka því ferli hvernig leiða ætti slík mál til lykta.

Það er þess vegna sem við stöndum hér. Það er þess vegna sem við höfum loksins náð því að setja lög um þjóðlendur og að ákveðið ferli er að fara af stað. Óbyggðanefnd er búin að lýsa kröfugerð á fyrsta landsvæðinu sem hún tekur fyrir og þá á ýmislegt eftir að gerast áður en þau mál eru leidd til lykta.

Ég ætla að leyfa mér að taka orð hv. þm. þannig þegar hann segir að hann telji líka að tryggt eigi að vera hvað sé þjóðlenda, þá sé hv. þm. að taka undir með mér um að mikilvægt sé að skilgreina þjóðareign á landi og ef ég skil þau orð hans rétt, þá fagna ég þeim vegna þess að við að hlusta á þingmanninn hefur mér fundist að hann væri uppteknari af því að leiða til lykta hver sé eignarréttur annarra en þjóðarinnar. Ég vil að þessi skoðun fari fram með opnum huga af beggja hálfu en við skulum muna hverra umbjóðendur við erum akkúrat í þessu máli og hversu mikilvægt það er að styðja það fólk sem hefur verið að vinna að þessum málum fyrir hönd okkar og landsmanna.