Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:57:30 (7100)

2000-05-08 21:57:30# 125. lþ. 108.34 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:57]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. án fyrirvara og nefndin var sammála um að það þyrfti að taka á málinu. Skyldi nú engan undra því að þær æfingar sem hafa verið stundaðar eru kannski dæmigerðar fyrir ýmislegt sem hefur verið látið viðgangast í stjórn fiskveiða. Þarna hafa verið hafðar uppi eins konar hundakúnstir til að búa til eina fisktegund úr annarri. Skyldi það hafa verið meiningin í upphafi þegar lögin voru sett? Ég dreg það í efa. Ég held því fram að ástæðan fyrir því að þetta var sett inn í lögin í upphafi hafi verið sú að menn vildu leyfa ákveðinn sveigjanleika þannig að útgerðarmenn væru ekki eins bundnir af nákvæmlega þeirri úthlutun á aflamarki í einstökum fisktegundum sem aflamark þeirra gaf tilefni til og hefðu lítils háttar sveigjanleika.

Það sem gerist er hins vegar það að útgerðarmenn spila á þessa leið. Þeir fara að leigja til sín veiðiheimildir eftir að sá möguleiki opnast og nota leigðar veiðiheimildir til að breyta einni fisktegund í aðra. Þannig fer það síðan að þróast og gerast að ákveðnar útgerðir, tiltölulega fáar, stórar útgerðir stunda þessar hundakúnstir að breyta einni fisktegund í aðra og þannig eykst veiðiálag á fiskstofnum fram yfir það sem fiskifræðingar hafa lagt til og fram yfir þá úthlutun sem ákveðin hefur verið, eftir tillögu fiskifræðinga, af stjórnvöldum.

[22:00]

Gott og vel. Menn hafa reyndar rætt þetta mál í mörg ár. Þrátt fyrir það hefur engin breyting verið gerð og hvers vegna? Sjálfsagt vegna þess að aðalhagsmunaaðilar, þeir sem í gegnum tíðina hafa haft mest áhrif á stjórnvöld í þessum málum, hafa ekki viljað breytingar. Skyldi ástæðan vera sú að áhrifamestu aðilarnir í stjórn LÍÚ eru frá þeim útgerðarfyrirtækjum og úr þeim útgerðarflokkum sem helst hafa hag af fyrirkomulaginu? Það segir sitt um þá en líka um þá sem ráðið hafa ríkjum á hv. Alþingi, að þeir skuli ekki hafa gert breytingar á þessu furðulega fyrirbrigði. Ekki getur þetta haft neitt með stjórn fiskveiða að gera. Ekki getur það verið til góðs að veiða annað magn úr ákveðnum fisktegundum en fiskifræðingar hafa lagt til og stjórnvöld komist að niðurstöðu um að fara eftir? Ekki aldeilis. Í mörg ár hefur verið haldið uppi heimskulegum reglum vegna þess að þeir sem ráða ferðinni hjá LÍÚ hafa viljað hafa það þannig og einhverjir tilteknir aðilar hafa getað nýtt sér það.

Ég fagna því sérstaklega að menn hafi getað sameinast í hv. sjútvn. um að leggja til að þessu verði breytt. Ég ætla satt að segja að vona að menn muni ganga þann veg á enda, samþykki ekki bara tillögu um að minnka þetta heldur samþykki tillögu um að afnema þetta alveg. Í frv. sem liggur fyrir hv. Alþingi er tillaga um að draga úr þessu. Ég tel að eina skynsamlega niðurstaðan í málinu sé að afnema þetta alveg. Það væri þá miklu nær að leyft yrði að útgerðaraðilar gætu farið lítils háttar fram úr aflaheimildum sínum sem færast mundi á næsta ár. Þeir fengju að veiða eitthvað lítils háttar meira í hverri tegund og það yrði síðan tekið af kvóta þeirra á næsta ári á meðan núverandi ástand í stjórn fiskveiða varir, sem ég vona að taki enda fyrr en síðar.

Leiðin til að losa sig út úr þessu máli er mjög einföld. Hún er einfaldlega að afnema þessa leið og koma til móts við útgerðarmenn með því að leyfa þeim að veiða dálítið meira úr þessum tegundum. Það yrði síðan dregið af kvóta næsta árs. Ég vona að það verði niðurstaðan og ég vona að það verði orðið við þeim tilmælum nefndarinnar að þetta mál komi fyrir þingið strax á næsta hausti. Það er engin ástæða til þess að halda áfram þeirri ósvinnu sem hér hefur verið stunduð til margra ára.

Það mætti svo sem margt um þetta segja en ég ætla ekki að halda langa tölu um þetta mál. Þetta er í sjálfu sér einfalt mál og ætti að vera öllum þingmönnum mjög vel skiljanlegt að svona er eiginlega ekki sæmandi okkur á hv. Alþingi, að viðhalda arfavitlausum reglum eins og þessari sem hér hefur verið við lýði til margra ára og menn hafa ekki fyrr en nú mannað sig í að taka á.