Varðveisla báta og skipa

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:17:20 (7109)

2000-05-08 22:17:20# 125. lþ. 108.37 fundur 636. mál: #A varðveisla báta og skipa# þál. 18/125, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Upphaf þessa máls var að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson flutti tillögu hér ásamt öðrum þingmönum um varðveislu gamalla skipa. Hugmynd hans og þeirra sem upp á tillöguna skrifuðu var sú að Þróunarsjóður sjávarútvegsins fjármagnaði varðveislu gamalla skipa. Það er að mínu viti eitt af því sem er mikilvægast til varðveislu þeirra, hvað eigum við að kalla það, minja, t.d. skipa, sem hér er á ferðinni.

Við höfum ekki nýtt okkur þau tækifæri sem hafa komið upp á undanförnum árum. Ég tók þátt í umræðu á hv. Alþingi fyrir um það bil sex, sjö árum sem fór fram í kjölfar þess að hér höfðu verið teknar upp reglur sem fólust í því að úrelda skip og Hæstiréttur Íslands hefur nú úrskurðað að hafi verið brot á stjórnarskránni. Þessar reglur voru svo harkalegar að þeir sem úreltu skipin urðu ekki bara að taka þau úr notkun heldur urðu þeir að eyðileggja þau. Þau varð að brenna. Þeim varð að kasta á eld eða saga niður til þess að fullnægja þeim reglum sem höfðu verið skapaðar um það hvernig úrelding skyldi fara fram.

Á þessum tíma voru eyðilagðir dýrgripir sem verða auðvitað aldrei bættir vegna þess að á þessum tíma er að ljúka þeirri sögu í skipasmíði á Íslandi sem tengist tréskipum. Á svipuðum tíma og þessar reglur eru teknar upp er í raun lokið því tímabili sem við getum kallað timburskipatímann. Það voru til og eru reyndar til enn töluvert mörg skip úr tré en á þessum árum sem fóru í hönd eftir að reglurnar voru teknar upp um úreldingu var eyðilagður fjöldi skipa sem voru í góðu standi. Þau hefði verið hægt að nýta til margra ára í alls konar verkefni þó þau hefðu ekki verið notuð til þess að veiða á þau fisk. Þau mundu sóma sér vel í dag og ábyggilega væru mörg þeirra talin eftirsóknarverð nú til þess að nýta til ferðaþjónustu eða einhvers annars.

Nú hefur það sem sagt komið í ljós og það er niðurstaða Hæstaréttar að allt þetta hafi verið brot á stjórnarskránni, þ.e. þær reglur sem voru notaðar í þessu tilfelli. En sem betur fer breytti hv. Alþingi þessum reglum sem gerðu mönnum skylt að eyðileggja skipin og þá hættu nú flestir þeirri iðju. En auðvitað var haldið áfram að úrelda þessi skip af því að reglurnar voru til staðar og notagildi þeirra var ekki mikið eftir að þau höfðu ekki lengur leyfi til þess að veiða fisk. Það voru því einungis þeir sem vildu eiga þessi skip að gamni sínu eða nýttu þau vegna ferðaþjónustu sem héldu þessum skipum við.

Eins og ég var að segja áðan þá helst það í hendur að menn hætta næstum því alveg að smíða tréskip á Íslandi í kringum 1980 og reglurnar komu svo á áratugnum þar á eftir. Nú hafa ýmsir aðilar ekki bara viðhaldið þessum skipum sem atvinnutækjum heldur líka svona til þess að hafa þau að gamni sínu og til eru þó nokkuð mörg skip sem er það dýrt að halda við að það er ekki á færi einstaklinga og sú starfsemi sem viðkomandi einstaklingar eru með þessi skip í gefur ekki nógu mikið af sér til að standa undir viðhaldi eða endurbótum á slíkum skipum. Ég tel að það þurfi að skilgreina mjög nákvæmlega hvað menn vilja varðveita, hvaða eintök af skipum menn vilja varðveita. Ég bendi sérstaklega á að það þarf að bjarga síðustu skipunum sem voru byggð hér í kringum 1950 t.d. Þau voru alhliða skip. Þetta voru grunnslóðarveiðiskipin sem voru notuð á vetrarvertíðum, á línu, á net. Þessi skip fóru á sumrin á síld. Þetta voru fjölveiðiskip þessa tíma. Þau voru smíðuð úr tré og þau eru til enn, nokkur þeirra. En þau verða ekki til mikið lengur ef menn ekki bregðast við.

Maður sér þessi skip standa uppi á kömbum og fljóta við bryggjur, orðin illa farin sum. Ég hef heyrt í ýmsum sem eiga svona skip sem sjá ekki almennilega færi á því að koma þeim í það stand sem þau þurfa að vera í. Þessi skip hafa hins vegar hentað ágætlega til þess að flytja fólk í hvalaskoðunarferðum og í siglingum við landið með ferðamenn í ýmsum tilgangi. Það þarf því kannski ekkert óskaplega mikla styrki eða aðstoð við að halda þessum skipum við. En það er ekki bara um það að ræða að veita styrki með þessum hætti. Það þarf líka að athuga vel hvort sum af þessum skipum þurfi ekki hreinlega að friða og sjá til þess að þau verði ekki eyðilögð. Ég held t.d. að ástæða væri til þess að skoða skip eins og þau sem Landhelgisgæslan notaði í þorskastríðunum.

Er ekki full ástæða til þess að geyma einn af þessum glæstu farkostum sem unnu fyrir okkur landhelgisstríðið eða réttara sagt þau skip sem þær sjávarhetjur sem við horfðum með mikill hrifningu til sigldu á þegar þeir unnu þetta stríð fyrir okkur? Mér finnst vera að því skömm ef okkur tekst ekki að eiga eitt eða tvö af þessum skipum til þess að komandi kynslóðir geti séð hvað þeir höfðu í höndunum sem unnu þessa styrjöld fyrir okkur. Þetta voru nú ekki stór skip. Forsaga og saga yfirráða okkar yfir landhelginni á eftir að lifa með þjóðinni lengi og full ástæða er til að bjarga þessum verðmætum.