Varðveisla báta og skipa

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:32:58 (7111)

2000-05-08 22:32:58# 125. lþ. 108.37 fundur 636. mál: #A varðveisla báta og skipa# þál. 18/125, KLM
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:32]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur fyrir frá hv. sjútvn. er mjög merkilegt plagg og er samið upp úr því frv. til laga sem þeir hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason fluttu fyrr í vetur. Það var löngu tímabært frv. sem fjallaði um að bjarga fyrir horn, ef svo má að orði komast, þeim miklu og sögulegu minjum sem ýmsir fiskibátar eru, en eru að grotna niður um allt land og hverfa.

Sá sem hér stendur þekkir þá sögu og náði rétt í skottið á hinu mikla síldarævintýri Íslendinga á Siglufirði. En ég hef þó lesið töluvert um það í bókum sem þar átti sér stað. Ég er ákaflega minnugur þess tíma þegar menn tóku sig til og fóru á ákveðinn stað í bænum og náðu sér í svo sem eins og tvo snurpunótabáta til að setja á áramótabrennu bæjarins. Þannig voru þessar sögulegu minjar brenndar á áramótabáli í mörg ár.

Á síðustu stundu má eiginlega segja að hafist hafi verið handa af áhugamönnum fyrst og fremst við að safna saman minjum síldarævintýrisins á Íslandi og redda þeim fyrir horn, ef svo má að orði komast. Þar á ég við hið merka og mikilvæga starf sem Félag áhugamanna um minjasafn á Siglufirði beitti sér fyrir fyrir um tíu árum þegar þeir tóku við því verkefni af frekar fjárvana bæjarsjóði sem ekki hafði neina getu til þess að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem síðar hefur átt sér stað. Og sem betur fer hafa ýmis stórfyrirtæki landsins komið að því máli, styrkt það og veitt töluverða peninga til þess.

Í ljósi þessarar sögu er þessi till. til þál. mjög ánægjuleg. Öll nefndin stendur að henni sem er, eins og ég sagði áðan, samin upp úr fyrrnefndu frv. Þáltill. er um að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skuli að varðveislu þessara gömlu skipa. Þetta er tillaga sem í rauninni hefði átt að vera búið að samþykkja fyrir 15--20 árum. Þá væri fjölbreytnin í þeim gömlu skipum okkar sem til eru svolítið meiri en hún er í dag.

Það væri óskandi að tillagan, ef samþykkt verður, gæti farið að virka mjög fljótlega því að eftir þrjú ár verða 100 ár liðin frá því að hið mikla síldarævintýri hófst á Íslandi, þegar Norðmenn hófu að veiða síld frá landi í Seyðisfirði og voru að kanna þann fisk sem stundum rak á land, veiðar sem Íslendingar lærðu svo af þeim. Ég segi þetta vegna þess að hið mikla og góða safn sem ég hef vitnað í og er í heimabæ mínum er einmitt með stórkostlegar hugmyndir sem hlotið hafa styrk, m.a. frá menntmrn., til að byggja upp safn, lifandi safn í raun og veru með m.a. þessum gömlu, góðu bátum, sem þar eiga að vera á floti í kví, og með öllu sem sneri að síldveiðum og hvernig þær þróuðust. Það væri óskandi ef Þróunarsjóður sjávarútvegsins, sem hingað til hefur veitt styrki til að úrelda frystihús víðs vegar um landið og þar af leiðandi kippt ýmsum atvinnufyrirtækjum frá viðkomandi stöðum, verður kannski töluvert aflögufær til að styrkja það sem hér er fjallað um, þ.e. varðveislu gamalla skipa.

Ég er t.d. ekkert viss um að margir snurpunótabátar séu til í dag. Ég gæti trúað að það sé, ef ég man rétt, kannski til hálfur bátur á Íslandi, svo furðulegt sem það nú er, vegna þess að helmingurinn hefur sennilega eyðilagst af einhverjum ástæðum. Mér er kunnugt um að þetta kostar milljónir króna. Og það getur ekki gengið og mun aldrei ganga upp að áhugamannafélög eða minjasöfn, sem flest eru frekar fjárvana, geti tekið þátt í og reddað þessum sögulegu minjum frá frekari förgun.

Það sem ég nefni hér er því ákaflega brýnt verkefni og mjög mikilvægt að þessi þáltill. nái fram að ganga. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. sjútvn. fyrir að hafa gert þó þetta við frv., að semja þá þáltill. sem hér er komin fram sem fjallar um þetta mál.

Herra forseti. Ég vildi aðeins draga þessi atriði inn í umræðuna. Þetta er löngu tímabært, við erum e.t.v. á elleftu stundu með að gera þetta. En ég legg líka áherslu á að það hefur í raun og veru ekkert að segja að samþykkja svona þáltill. --- það mætti reyndar bara kalla það sýndarmennsku --- ef ekki fylgja peningar með, vegna þess að allt snýst þetta um peninga og að hafa peninga til að redda þessum skipum, sama hvort farið verður í Vestfjarðakjördæmi, í eyðifirði sem þar eru til að ná sér í hvort heldur er gamla snurpunótabáta, hringnótabáta eða síldarverksmiðjur. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm. Kristján Pálsson? (KPál: Það er eitthvað í Ingólfsfirði.) Í Ingólfsfirði, þar hafa menn verið að fara til að ná í gamlar síldarverksmiðjur vegna þess að í síldarbænum Siglufirði var sennilega búið að jarða þrjár eða fjórar síldarverksmiðjur á öskuhaugum bæjarins. Það var nú öll minjaverndin fyrir um 15--20 árum.

En sem betur fer, eins og ég sagði áðan, herra forseti, hefur skilningur aukist mjög á þessu og ég hika ekki við, a.m.k. hvað varðar síldarminjar, að nefna og draga hér fram þetta áhugamannafélag sem ég nefndi áðan sem hefur unnið stórvirki, enda hefur það fengið ýmiss konar verðlaun, eins og frá forseta Íslands, og fleiri aðilum fyrir það sögulega og mikla starf sem þar hefur verið unnið.