Þingstörf fram að sumarhléi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:41:11 (7112)

2000-05-08 22:41:11# 125. lþ. 108.93 fundur 493#B þingstörf fram að sumarhléi# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Við erum búin að vera öflug í dag og búið er að afgreiða allmörg mál frá því að við byrjuðum þingfundinn sjálfan klukkan 10.30 í morgun. En dagurinn hefur verið mun lengri og er svo sem vel að kveldi kominn núna, komið undir ellefu.

Ég get nefnt að tólf manna hópur Reykjanessþingmanna var kominn til Vegagerðarinnar klukkan átta í morgun, á sama tíma voru allnokkrar nefndir að störfum. Þess vegna voru nokkrir árekstrar hvað varðaði tímasetningar þegar menn voru að hlaupa á milli funda. Þetta er því orðinn allgóður dagur og tími til kominn að fara að huga að því að ljúka honum. Mér finnst mjög við hæfi að við ljúkum þessum þingfundi núna um ellefuleytið.

Mér finnst líka afar brýnt, herra forseti, að við skoðum það að ná samstöðu um þau mál sem á að afgreiða á þessu þingi. Engin meiri háttar ágreiningsmál eru uppi en þó er það svo að afar skiptar skoðanir eru um hvaða mál á að afgreiða úr nefndum og hver verði látin liggja og eins eru hér nokkur mál sem eru tilefni allnokkurrar umræðu. Hins vegar hef ég fundið að fullur áhugi er á því að ljúka þingi jafnvel fyrir miðjan dag á fimmtudag, en þá er líka mjög mikilvægt að við setjumst saman og skoðum hvernig á að halda á málum og hvaða mál á að afgreiða og við þingflokksformenn höfum svo sem þreifað á því saman.

Ég vil líka minna á að það er frekar leiðinlegt fyrir Alþingi að setja lög um annað fólk úti í bæ en fara aldrei eftir því hvað okkur sjálf varðar. Ég man ekki betur en að í lögunum um vinnutíma sem sett voru samkvæmt vinnutímatilskipun sé gerð krafa um ellefu tíma hvíld á milli vinnudaga, undir sérstökum kringumstæðum fari hún niður í átta tíma. Við förum nú að nálgast þau mörk.

En það er annað, við ákváðum að hafa kvöldfund í kvöld, við ætlum að hafa kvöldfund annað kvöld, við ætlum að hafa eldhúsdagsumræður þriðja kvöldið og við erum að ræða um að ljúka þingi á fimmtudag. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt, herra forseti, að við förum nú að huga að því að ljúka í kvöld og skoðum það síðan með opnum huga hvernig vinnudagurinn á morgun verður og hvaða mál verði þá afgreidd.