Þingstörf fram að sumarhléi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:45:46 (7114)

2000-05-08 22:45:46# 125. lþ. 108.93 fundur 493#B þingstörf fram að sumarhléi# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:45]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þingfundurinn hefur að sönnu staðið nokkuð lengi eða frá því í morgun en það er ekki óvanalegt á þessum tíma þinghalds að vori að þingfundir verði stundum langir undir lokin. Enn eru af 37 málum fjögur mál á dagskrá sem ætlunin er að sjálfsögðu að ljúka umræðu um.

Ég heyri á hv. þm. sem hér hafa tekið til máls um fundarstjórn forseta að þeir hafa hug á að ræða þau mál sem enn eru óútrædd. Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða og gefa eigi þeim hv. þm. kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í þessum málum. Stutt er til áformaðra loka þinghaldsins og því þurfum við að nýta vel þann tíma sem er til umráða. Ég beini því til hv. þm. að beita sér fremur fyrir því að málin verði rædd en hinu að þau verði ekki rædd.

Ég átta mig ekki alveg á því hvað vinnst með því að fresta málum sem menn hafa hug á að taka til máls um. (ÁRJ: Fresta til haustsins.) Það er allt annað mál, herra forseti. Hér er kallað fram í af einum hv. þm. stjórnarandstöðunnar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, að fresta eigi málum til haustsins. Með öðrum orðum: Er þingmaðurinn þá að segja að beiðnin sé ekki um að fresta umræðu um málin til morguns heldur að koma í veg fyrir að málin verði rædd? Það er auðvitað allt önnur beiðni en hv. þm. sem tekið hafa til máls á undan mér hafa borið fram. Ég vænti þess að það vaki ekki fyrir hv. þingmönnum, t.d. hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að koma í veg fyrir það að vilji þingsins nái fram að ganga í 11. máli á dagskránni, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.