Bílaleigur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:33:55 (7127)

2000-05-09 10:33:55# 125. lþ. 109.17 fundur 570. mál: #A bílaleigur# frv. 64/2000, Frsm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:33]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. um frv. til laga um bílaleigur.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Bifreiðastjórafélaginu Andvara, Samtökum ferðaþjónustunnar og Átaki, bílaleigu.

Frv. er ætlað að setja almennar reglur um rekstrarumhverfi bílaleigna. Þar er leitast við að setja starfsgreininni fastari skorður með því að gera meiri kröfur til þeirra sem fást við útleigu bifreiða og auka þannig öryggi viðskiptavinanna.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frv.:

1. Lagt er til að gildissvið laganna verði þrengt til að taka af öll tvímæli um að þeim er ekki ætlað að ná til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila.

2. Lagt er til að skilgreiningu hugtaksins ,,bílaleiga`` í frv. verði breytt þannig að ekki verði einungis um að ræða leigu til almennings heldur einnig til fyrirtækja. Þá er lagt til að bætt verði við skilyrði um að bifreiðar verði að jafnaði ekki leigðar til lengri tíma en þriggja vikna.

3. Lagt er til að áður en samgönguráðuneyti veitir starfsleyfi skuli leitað umsagnar lögreglustjóra í því umdæmi sem bílaleiga mun hafa fasta starfsstöð.

4. Lagt er til að kveðið verði á um að skrá yfir leyfishafa, sem samgönguráðuneytinu verður skylt að halda, verði birt með aðgengilegum hætti. Til slíkrar birtingar gæti talist birting á heimasíðu Stjórnarráðsins sem uppfærð yrði reglulega.

5. Lagt er til að þeim einum verði heimilt að hafa orðið bílaleiga í nafni starfsemi sinnar sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögunum.

6. Lagt er til að föst starfsstöð bílaleigu skuli opin almenningi.

7. Lagðar eru til nokkrar smávægilegar orðalagsbreytingar í 4. gr. Þá er lagt er til að bætt verði við tilvísun til 4. gr. í lokamálsgrein 3. gr.

8. Lagt er til kveðið verði á um að starfsábyrgðartryggingu sé ætlað að bæta tjón vegna vanefnda á leigusamningi. Er henni ætlað að vernda leigutakann fyrir tjóni, þar á meðal rekstrartapi sem gæti hlotist af vanefndum á leigusamningi.

9. Lagt er til að stjórnarmenn, sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahags svæðisins og búsettir í einhverju þeirra, verði undanþegnir búsetuskilyrði 1. tölul. 1. mgr.

10. Lagt er til að afrit af leyfisbréfum skuli vera í útibúum bílaleigna.

11. Lagt er til að bílaleigur skuli jafnt bjóða bifreiðar til leigu til almennings sem fyrirtækja.

12. Lagt er til að samgönguráðherra geti ákveðið í reglugerð að bifreiðar bílaleigna skuli merktar sérstaklega. Slík merking gæti t.d. stuðlað að bættu skatteftirliti með bílaleigum.

13. Lagt er til að samgönguráðherra geti kveðið á um að leigusamningar skuli vera í tilteknu formi.

14. Lagt er til að skylt verði að varðveita leigusamning í eitt ár frá undirritun hans. Er það gert vegna þess að slíkir samningar hafa í mörgum tilvikum reynst mikilvæg gögn við rannsókn opinberra mála.

15. Lögð er til orðalagsbreyting á 8. gr. frv. Þá er lagt til að hún verði með fyrirsögn eins og aðrar greinar frv.

16. Lagt er til að samgönguráðherra verði heimilt að afturkalla starfsleyfi bílaleigu ef umsækjandi hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar til að fá leyfið eða fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna.

17. Loks er lagt til að felld verði brott 70. gr. umferðarlaga. Þar er fjallað um útleigu ökutækja án ökumanns í atvinnunskyni, en við lögfestingu frv. þessa verður greinin óþörf.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.