Bílaleigur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:39:14 (7131)

2000-05-09 10:39:14# 125. lþ. 109.17 fundur 570. mál: #A bílaleigur# frv. 64/2000, KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:39]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það frv. sem hér er verið að ræða um bílaleigur er að sjálfsögðu frv. sem hefði þurft að vera komið fram fyrir löngu til að setja fastar reglur eins og hér er kveðið á um. Samgn. hefur farið töluvert yfir frv. en ég verð aðeins að segja rétt í upphafi máls míns um það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var að ræða hér áðan, að þetta er vissulega leið sem hægt er að fara fyrir þá sem vilja spila á kerfið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég minntist þess ekki að hafa heyrt þetta við 1. umr. og við höfum ekki tekið þetta upp en mér finnst sjálfsagt að ræða þennan möguleika í samgn. milli umræðna.

Ég er sammála hv. þm. um að þarna er ákveðin smuga sem hægt er að fara. Það er sannarlega rétt.

En hér eru gerðar brtt. sem hv. samgn. stendur öll að og þar á meðal sá sem hér stendur. Ég held að þær séu hins vegar allar til bóta og þarf svo sem ekki að fjölyrða mikið um þær. Þó eru nokkur atriði sem tekin eru upp sem eru kannski smá en gætu verið mikils virði eins og það að samgrh. geti ákveðið með reglugerðum að bifreiðar bílaleiganna skuli merktar sérstaklega. Það held ég að sé ákaflega mikilvægt, ekki eingöngu til að auðkenna þær gagnvart misnotkun eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, heldur líka til að auðkenna þær gagnvart öðrum í umferðinni. Vissulega er stundum þörf á því vegna þess að við vitum að túristar taka þessa bíla á leigu og fólk finnur það í umferðinni.

Það má alveg benda á að hægt væri að merkja þetta sérstaklega í bílamerkinu sjálfu. Þar er pláss til að setja inn einhverja aðgreiningu eins og sumar bílaleigur gera reyndar til þess að auðkenna bílana.

Eins og ég segi var sátt um öll þau atriði í brtt. og kemur það fram í nál. þannig að það þarf ekki að ræða þetta frv. frekar. Hins vegar tek ég alveg undir það með hv. þm. og ítreka það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér áðan. Ég held að rétt væri að skoða þetta atriði milli umræðna.