Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:46:16 (7133)

2000-05-09 10:46:16# 125. lþ. 109.18 fundur 567. mál: #A rannsókn sjóslysa# frv. 68/2000, Frsm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:46]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. um frv. til laga um rannsókn sjóslysa.

Frv. gerir ráð fyrir gerbreyttu formi í rannsóknum sjóslysa, og er útfært á fyllsta máta mjög faglega og á að vera bæði skilvirkara og menn eiga að geta gengið fyrr til verka í þeim efnum. Líklega var löngu tímabært að taka þann hátt á sem hér er mælt fyrir í frv. Fjölmargir aðilar hafa komið að málinu og rætt við samgn.

Með frv. er lagt til að lögfest verði heildarlög um rannsókn sjóslysa sem komi í stað ákvæða siglingalaga um það efni.

Í frv. eru nokkur nýmæli miðað við gildandi löggjöf. Lagt er til að sjóslysarannsóknir verði algjörlega sjálfstæðar og að því leyti hliðstæðar rannsóknum flugslysa en hingað til hefur frumrannsókn sjóslysa verið hjá lögreglu og í sjóprófum. Þá er kveðið á um að sönnun í opinberum málum verði ekki byggð á skýrslum rannsóknarnefndar sjóslysa. Er það gert til að trúnaður megi haldast milli rannsakanda og þeirra sem rannsóknin beinist að. Loks er lagt til að álit rannsóknarnefndarinnar verði notuð til að efla forvarnir og auka öryggi skipa og sjómanna.

Nefndin leggur til að tekið verði fram í frv. að einn nefndarmanna í rannsóknarnefndinni skuli vera formaður. Þá eru lagðar til tvær aðrar smávægilegar breytingar sem eru ekki efnislegar.

Þetta frv. markar ákveðin þáttaskil í öryggismálum sjómanna, framgangi þeirra, forvörnum og að gengið sé til verka strax og unnt er við rannsókn slysanna.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.