Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:48:30 (7134)

2000-05-09 10:48:30# 125. lþ. 109.18 fundur 567. mál: #A rannsókn sjóslysa# frv. 68/2000, KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Öll samgn. stendur að því nál. sem hv. formaður nefndarinnar, Árni Johnsen, hefur kynnt. Eins og hefur komið fram snýst það um að frumrannsókn sjóslysa verði hjá lögreglu og í sjóprófum. Þetta er stórt og mikið mál í öryggismálum sjómanna og varðar þá miklu. Því er löngu tímabært að setja þetta fram eins og hér er.

Frv. breytir mikið forminu á rannsókn sjóslysa og eins og komið hefur fram í umsögnum allra aðila og þeirra sem þetta sömdu verður framkvæmdin mun skilvirkari en áður hefur verið. Í raun er verið að líkja eftir þeim ákvæðum og þeim lögum og öðru sem farið er eftir í sambandi við rannsóknir flugslysa sem við höfum sannarlega tekið eftir að er mun skilvirkara eða hefur virkað betur en þarna hefur verið gert.

Samgn. stendur öll að nál. Þetta er eitt af þeim fjölmörgu málum sem samgn. hefur fjallað um og er enginn ágreiningur um. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta sem þarna hefur komið fram en ég legg áherslu á það, herra forseti, að þetta er mikilvægt mál í öryggismálum sjómanna og löngu tímabært að gera þetta á þann hátt sem mælt er fyrir um.