Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:50:24 (7135)

2000-05-09 10:50:24# 125. lþ. 109.18 fundur 567. mál: #A rannsókn sjóslysa# frv. 68/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:50]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. um rannsókn sjóslysa er afar þarft og eins og komið hefur fram hafa allir sem sent hafa umsögn til samgn. um málið verið einróma um að þetta væri afar brýnt og þarft mál. Ég vil þó vekja athygli á mikilvægi þess að rannsóknarnefnd sjóslysa geti starfað sem sjálfstæðast og að hún hafi líka umboð til þess, eins og lögin kveða reyndar á um, að geta kallað til aðila til að gefa upplýsingar í þessum málum.

Mikilvægt er að þeir sem nauðsynlegt er að kalla til komi og að þá séu möguleikar á að greiða ferðakostnað og annan útlagðan kostnað sem slíkir aðilar þurfa að taka á sig þannig að ekki séu óljós ákvæði um hver skuli greiða kostnað við öflun gagna og upplýsinga sé ljós og rannsóknin gjaldi þess ekki.

Í umræðum um málið í nefndinni var litið svo á að rannsóknarnefnd sjóslysa hefði umboð til að greiða sanngjarnan og eðlilegan kostnað sem aðilar gætu þurft að taka á sig til að gefa nauðsynlegar upplýsingar.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti. Það er mikilvægt í þessu máli að umgjörðin öll sé skýr þannig að ekki komi til vafamál og rannsóknir og upplýsingar gjaldi þess.