Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:58:10 (7139)

2000-05-09 10:58:10# 125. lþ. 109.20 fundur 569. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# (undanþágur) frv. 73/2000, KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:58]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það er aðeins varðandi þetta nál. vegna þess að ég held að ég hafi ekki verið viðstaddur fund samgn. þegar þetta var klárað. Ég fór aðeins að velta því fyrir mér að þarna er verið að setja undanþágu um að skip sem ekki eru notuð í atvinnuskyni verði undanþegin þeirri skyldu en það eru fyrst og fremst skemmtibátar eins og þarna er kveðið á um.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna skemmtibátarnir falli ekki undir þessa sjálfvirku tilkynningarskyldu. Þar geta verið margir um borð og þeir geta verið lengi í burtu. Það er verst að hv. þm. og formaður samgn., Árni Johnsen, er ekki í salnum en ég ítreka það kannski þegar hann kemur í salinn. Það var fyrst og fremst þetta atriði sem mér sem nefndarmanni er ekki alveg kunnugt um hvers vegna er fellt út. Ég hefði talið fulla þörf á að hafa það þarna inni. Ef það er vegna þess að verið er að horfa í kostnaðinn við þann tækjabúnað sem þarf um borð í skipin þá er það spurning hvort það sé aðalatriðið. Kostnaður við þessi tæki um borð í skipin er töluverður þó svo tækið sé niðurgreitt, þetta nýja fullkomna tæki, en því miður er það svo að það er aðeins eitt fyrirtæki, að mér skilst, sem framleiðir tækið þannig að samkeppni vantar auðvitað við framleiðslu tækjanna sem mundi þá vafalaust verða til þess að þau yrðu ódýrari.

Ég veit að formaður samgn., hv. þm. Árni Johnsen, getur svarað því hér á eftir hvers vegna skemmtibátarnir eru undanþegnir og hvort ekki væri full ástæða til að hafa þá þarna inni líka vegna þess að þeir eru orðnir töluvert miklar snekkjur margir hverjir og margir geta verið um borð. Það er kannski ekki nóg að þeir tilkynni sig þegar þeir fara úr höfn og koma í höfn og ég spyr hvort þarna sé eingöngu verið að horfa í tækjakostnaðinn. Ég sagði áðan að ég hefði sennilega ekki verið viðstaddur þennan fund þegar þetta var ákveðið. En nú hafa mér einmitt borist upplýsingar um það að tækið, sem sett verður í öll skip fyrir sjálfvirku tilkynningarskylduna, kostar 90 þús. kr. og er niðurgreitt sem betur fer. Þetta stóra og mikla og þarfa tilkynningarkerfi sem við urðum vitni að að var startað ekki alls fyrir löngu er náttúrlega algert tímamótaverk. Þeir aðilar sem hafa staðið að smíði þess og hönnun eiga heiður skilinn og þakkir skildar fyrir það verk. Vonandi virkar það vel þó svo við vitum að nokkrir blettir eru enn þá á ýmsum stöðum í ýmsum fjörðum sem eru blindir, ef svo má að orði komast.

Herra forseti. Spurning mín var fyrst og fremst sú, þó ég standi að þessu nál., sem ég þykist vita að sé einhver skýring á, hvers vegna skemmtibátarnir eru undanskildir. Ég hefði gaman af því að heyra það frá hv. formanni, Árna Johnsen.