Veitinga- og gististaðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:14:54 (7147)

2000-05-09 11:14:54# 125. lþ. 109.15 fundur 406. mál: #A veitinga- og gististaðir# (nektardansstaðir o.fl.) frv. 66/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:14]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í því frv. sem við ræðum er verið að reyna að skilgreina næturklúbba til að taka á ákveðnum vanda. Tilraunin er afskaplega krampakennd og fátækleg og mun ekki leiða til mikils vegna þess að hún tekur ekki mið af uppfinningasemi fólks. Hvað segja menn t.d. um íþrótta- og þrekþjálfunarstaði sem opna mjög snemma af því að það er heilsusamlegt, t.d. kl. 3, og sumir iðkendur eru afskaplega léttklæddir því að þeim hitnar við æfingarnar. Þeir eru svo léttklæddir að þeir eru nánast alveg naktir. (Gripið fram í: Hvar er það?) Aðrir borga vel fyrir að taka þátt í æfingunum. Hvað segja menn um slíka uppfinningasemi? Þetta mundi ekki vera næturklúbbur. Þetta mundi vera íþrótta- og þrekþjálfunarklúbbur. Og þar getur maður keypt sér koníak í sjálfsölum eða eitthvað slíkt.

Ég held að þessi tilraun muni ekki leiða til mikils. Vandamálið er ekki framboð á þjónustunni. Vandamálið er eftirspurnin eftir þjónustunni. Hvernig stendur á því að menn eru tilbúnir til að borga fyrir þessa þjónustu, eru tilbúnir til að borga fyrir það að sjá annað fólk nakið? Það er vandamálið og ég veit ekki hvor aðilinn er meira niðurlægður, sá sem borgar fyrir þjónustuna eða sá sem veitir hana.