Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:19:54 (7149)

2000-05-09 11:19:54# 125. lþ. 109.25 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sam\-ábyrgð Íslands á fiskiskipum.

Nefndin sendi þetta mál til umsagnar nokkurra aðila og fékk einnig á sinn fund fulltrúa viðskrn. Nefndin gerir tillögur til breytinga á frv. í fimm liðum.

Í 1. lið brtt. er lagt til að við 2. mgr. frv. bætist nýr málsliður sem gengur út á að Samábyrgð hf. taki við öllum skattalegum réttindum og skyldum Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Nefndin kveður ótvírætt á um þetta atriði.

Í 2. lið brtt. er lagt til að 3. gr. frv. falli brott, enda leggur nefndin til að það verði kveðið nánar á um það atriði annars staðar.

Í 3. lið brtt. eru lagðar til breytingar á 5. gr. þar sem einnig yrði kveðið skýrt á um tilvísun til Samábyrgðarinnar hf.

Í 4. lið brtt. er tillaga um að á eftir 5. gr. frv. komi grein sem fjalli um heimild til sölu á Samábyrgð hf. Greinin gerir ráð fyrir því að berist sameiginlegt tilboð frá öllum bátaábyrgðarfélögum um eignarhlut ríkisins í Samábyrgð hf. sé viðskrh. heimilt að selja þeim sameiginlega eignarhlutinn fyrir verð sem nemur að lágmarki 85% af reiknuðu upplausnarvirði félagsins eins og það er á stofndegi þess. Hafi sameiginlegt tilboð allra bátaábyrgðarfélaganna ekki borist ráðherra fyrir 1. september 2000 og samningaviðræðum lokið fyrir 1. nóvember 2000 skal ráðherra bjóða hlutafé til sölu á almennum markaði eða leysa upp félagið.

Í 5. lið brtt. er brtt. við 6. gr. sem gerir ráð fyrir tveimur nýjum málsliðum við 2. mgr. þannig að núgildandi lögmæltar húftryggingar fiskiskipa gildi út umsamið vátryggingatímabil og að vátryggingartakar skuli tilkynna vátryggjanda sínum í síðasta lagi mánuði fyrir lok vátryggingar hyggist þeir segja vátryggingunni upp.

Virðulegi forseti. Undir þetta nál. ritar öll nefndin en þrír hv. nefndarmenn, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson, rita undir það með fyrirvara.