Tryggingagjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:37:52 (7157)

2000-05-09 11:37:52# 125. lþ. 109.27 fundur 550. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður) frv. 102/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:37]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nefndarálitinu þá stöndum við í minni hluta efh.- og viðskn. að því nefndaráliti sem hér um ræðir, þ.e. þeirri breytingu sem felst í frv. til laga um breyting á lögum um tryggingagjald. Eins og fram mun koma síðar í dag í umræðu höfum við rætt þetta í samhengi við breytingar sem eru gerðar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og varða skattfrelsi lífeyrisiðgjalda eða greiðslur lífeyrisiðgjalda. Við styðjum einnig þann hluta þess frv. og teljum að hér sé um að ræða ágætisaðgerð í þá veru að hvetja landsmenn til sparnaðar. Þó að sú leið sem farin er geti vissulega kostað ríkissjóð einhverjar tekjur tímabundið þá er hér um hvatningu til sparnaðar að ræða og í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa komið frá okkar helstu fjármálastofnunum á undanförnum dögum þá veitir nú ekki af. Við stöndum eindregið að þeim breytingum sem gerðar eru hvað þetta varðar, bæði varðandi frv. sem hér er um að ræða og einnig þann þátt sem er í frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt.