Vörugjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:56:13 (7167)

2000-05-09 11:56:13# 125. lþ. 109.28 fundur 520. mál: #A vörugjald# (fjárhæð gjalds af tilteknum vörum) frv. 103/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:56]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. frá minni hluta efh.- og viðskn. sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur þegar mælt fyrir leggjum við til að þær breytingar sem lagðar eru til í frv. um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, verði látnar bíða þar til heildarendurskoðun á vörugjaldi hefur átt sér stað.

Vörugjaldið skilar 3 milljörðum, að mig minnir, í ríkissjóð á ári hverju og þær breytingar sem hér um ræðir munu skerða tekjur ríkissjóðs um allt að 150 millj. kr. Má vera að innflutningur á rafmagnsvörum verði það miklu meiri að hann skili einhverju þarna inn á móti en ég efa það stórlega, virðulegi forseti, að innflutningur á marmaralegsteinum eða hjólbörum eða handvögnum eða öðru slíku vaxi þrátt fyrir það að vörugjaldið sé fellt niður eða lækkað.

Það er dálítið merkilegt þegar þetta er skoðað að þá er auðvitað talað um samræmingaraðgerðir. En maður hlýtur þó að draga það í efa þar sem líkir vöruflokkar sem eru í öðrum köflum fá ekki sams konar meðhöndlun. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á vörugjaldi á undanförnum árum hafa aukið á þá mismunun sem er innan þessa gjaldstofns. Ég held að það hljóti að fara best á því að fram fari heildarendurskoðun á lögum um vörugjald og sé um algjörlega samræmdar aðgerðir verði að ræða þegar lagðar eru til breytingar á lögum eins og þessum og þær taki þá mið af öðrum ákvörðunum eins og það hvað varðar virðisaukaskattinn. Þetta eru lög sem ég tel óskynsamlegt að breyta nema þau séu skoðuð í heild sinni og þá auðvitað tekjur ríkissjóðs.

Það er þannig að gróft mat á tekjuáhrifum vegna frumvarpa sem hafa verið lögð fram núna á vordögum, núna í þessum mánuði og síðasta, að þau muni hafa í för með sér tekjuáhrif, mínustekjuáhrif upp á 2,1--2,6 milljarða kr. Það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir ríkisstjórnina og þingmeirihlutann eða hv. þm. sem fylgja hæstv. ríkisstjórn að málum þegar dregið er úr tekjuöflun ríkisins á þennan hátt á sama tíma og við erum að fá viðvaranir um ótryggt efnahagsástand eða a.m.k. þannig að það þurfi að bregðast við og halda vöku sinni. Þess vegna höfum við í minni hluta í efh.- og viðskn. ítrekað varað við því að öll þau frumvörp sem hér um ræðir séu afgreidd.

[12:00]

Ef farið er yfir þá þætti sem verið er að leggja til að taka vörugjaldið af eða hækka sem er í einu tilviki, þá er þetta auðvitað mjög merkileg upptalning og í sumum tilvikum algerlega óskiljanleg. Fyrir um það bil ári var tekin ákvörðun um að fella niður vörugjald af innflutningi á byssum og það var gert með þeim rökum að það væri til að efla útivist. Þá urðu eftir einhverjir flokkar sem þurfti að fella niður vörugjaldið af í átt til samræmingar. Þetta er flokkur sem heitir Vopn, skotfæri, hlutar og fylgihlutir til þeirra. Þar er um að ræða ýmsar gerðir skotvopna þar sem á að ljúka vinnunni og fella niður vörugjaldið sem hefur verið 25%, og má vera að það skili ekki neinu sem nemur í ríkissjóð. En á sínum tíma var ég ekki hlynnt því og fannst það ekki rétt ákvörðun að fella niður vörugjaldið af byssum og var þá þeirrar skoðunar sem ég er í dag að heildarendurskoðun þurfi að fara fram á þessum lögum í samræmi við það sem yrði þá skoðað hjá öðrum gjaldstofnum, t.d. virðisaukaskattinum. En það kemur spánskt fyrir sjónir þegar maður les þetta og þau númer sem um ræðir eru skoðuð, þá eru þetta marghleypur eða skammbyssur, haglabyssur, hlutar og fylgihlutir til vara fyrir marghleypur eða skammbyssur, fyrir haglabyssur eða riffla, haglabyssuhlaup og svo eru einhverjir aðrir liðir. Síðan koma sprengjur, handsprengjur, tundurskeyti, tundurdufl, flugskeyti og áþekk hergögn og hlutar til þeirra, skot og önnur skotfæri og skeyti og hlutar til þeirra, þar með talin högl og forhlöð, hvað sem það nú er.

Síðan eru skot í naglabyssur eða áþekk verkfæri eða sláturbyssur og hlutar til þeirra, skutlar og sverð, höggsverð, byssustingir, lensur og áþekk vopn og hlutar til þeirra, skeiðar og slíður til þeirra.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að sumt af þessum númerum og þeim vöruflokkum sem undir þau falla --- þó að hv. formaður efh.- og viðskn. sem ég met afar mikils og hefur verið dugnaðarforkur í störfum sínum í nefndinni hafi verið með þau rök að þarna væri verið að fella niður gjöld af vöru sem væri hvatning til útivistar, þá má vel vera að í Húnaþingi séu þetta nauðsynlegir fylgihlutir til útivistar en það er það ekki alls staðar á landinu. Mér finnst þetta því afar sérkennileg meðferð svo ekki sé meira sagt. Og hver er nauðsyn þess að fella niður vörugjald af hjólbörum og handvögnum? Hafa komið fram alveg sérstakar kvartanir yfir gjaldtöku af þeim vöruflokkum? Ég tel það varla geta verið. Hins vegar gegnir kannski öðru máli hvað varðar kafla þar sem fjallað er um rafmagnsvörurnar.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi að fella ætti niður vörugjald af snakki, popkorni, salthnetum, saltketi, kexi og saltstöngum. Þar sem fréttatilkynning hafði borist frá landbrn. um að haldinn yrði blaðamannafundur þar sem hæstv. landbrh. kynnti að fyrir dyrum stæði að gera sérstakan viðskiptasamning milli Noregs og Íslands um niðurfellingu tolla af íslenskum hestum og norskum ostum og snakki, þá velti ég því auðvitað fyrir mér hvort þetta sé í einhverju samhengi við þann samning sem þar hefur verið gerður. Á minnisblaði sem barst efh.- og viðskn. í tilefni þess að ég spurðist fyrir um hvort þessi samningur hefði nú þegar verið undirritaður kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Efh.- og viðskn. hefur farið þess á leit að ráðuneytið veiti upplýsingar`` --- þetta er frá landbrn. --- ,,um samning Íslands og Noregs er varðar niðurfellingu tolla við innflutning á íslenskum hestum til Noregs annars vegar og niðurfellingu tolla við innflutning á norsku snakki og ostum til Íslands hins vegar. Samkvæmt upplýsingum utanrrn. er samningaviðræðum lokið en samningurinn hefur hins vegar ekki verið borinn undir ríkisstjórn til staðfestingar.

Í fyrrgreindum samningi felst að á ári hverju verði tollar felldir niður við innflutning á 200 íslenskum hestum til Noregs. Á móti kemur að við innflutning til Íslands verði tollur felldur niður af 13 tonnum af norskum osti í tollskrá nr. 0406-3000, fullunnum ostum, órifinn eða ómulinn, svo og af 15 tonnum af norskum kartöfluflögum úr undirlið 2005-20.``

Þetta er auðvitað hinn sérkennilegasti samningur sem hæstv. landbrh. hefur gert við norsk stjórnvöld og er með ólíkindum að þarna sé verið að hvetja til innflutnings á norskum kartöfluflögum þegar við erum með íslenska verksmiðju sem framleiðir sams konar vöru. Annars vegar er um að ræða innflutning á osti og hins vegar á norskum kartöfluflögum og á sama tíma eru mjög harðir tollkvótar og auknar heimildir til landbrh. að ákveða hvernig skuli stýra innflutningi almennt á landbúnaðarafurðum. Í einu frv. er verið að afnema heimild til fjmrh. til að ákveða að mig minnir vörugjald eða gjald af áfengi og til að gefa út reglugerð og ákveða það einliða vegna þess að heimild fjmrh. til að taka slíkar ákvarðanir bryti í bága við stjórnarskrá Íslands. Það hlýtur að vera komið að þeim tímapunkti að Alþingi fari fram á úttekt á þeim víðtæku heimildum sem um leið er verið að veita öðrum hæstv. ráðherrum, eins og t.d. landbrh. til að ákveða magntolla og ýmislegt sem lýtur að innflutningi á landbúnaðarafurðum. Það eru afar víðtækar heimildir sem landbrh. fær í þessum efnum og það kemur manni svolítið spánskt fyrir sjónir að á sama tíma er verið að afnema eða fella úr gildi tiltölulega þröngar heimildir t.d. hjá hæstv. fjmrh., í öðrum frv. og jafnvel sömu frv. verið að veita enn víðtækari heimildir til hæstv. landbrh. til að taka ákvarðanir varðandi gjöld á ákveðna vöruflokka við innflutning og þá náttúrlega mjög harða stýringu.

Við hljótum að fara fram á það að Alþingi beiti sér fyrir því að það verði skoðað sem ekki var mögulegt í nefndinni þó að menn viðurkenndu að þetta væru atriði sem þyrfti að skoða, þá þarf lengri tíma en nefndin hafði til þess að ljúka umfjöllun um þau frv. sem hér um ræðir og í einu þeirra er a.m.k. fjallað um heimildir til landbrh. En við höfum mjög stuttan tíma til að láta gera þá úttekt en Alþingi hlýtur engu að síður að beita sér fyrir því að slík úttekt verði gerð, heildarúttekt á þeim heimildum sem hæstv. ráðherrar hafa til stýringar vegna gjaldtöku eða álagningar gjalda.

Ýmsir þeir sem sendu umsagnir til nefndarinnar hafa tekið undir þau sjónarmið sem ég hef sett fram um að fram þurfi að fara heildarendurskoðun á vörugjaldinu. Í umsögn sem kom til nefndarinnar frá Samtökum iðnaðarins 18. apríl sl. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Samtök iðnaðarins hafa alla tíð barist fyrir því að vörugjöld verði felld niður og tekið verði upp eitt kerfi neysluskatta, þ.e. að virðisaukaskatturinn einn og sér eigi að skattleggja neysluna í stað núverandi tvöfalds kerfis virðisaukaskatts og vörugjalds.``

Það kemur reyndar fram hjá Samtökum iðnaðarins að þeir telji sömuleiðis rétt ,,að öll matvæli séu í lægra þrepi virðisaukaskattsins en ekki að sum þeirra séu í hærra þrepinu og önnur í því lægra eins og nú er. Það er óþörf neyslustýring sem ræðst af forræðishyggju og óljósum hugmyndum hollustu eða óhollustu.``

Ég tel, virðulegi forseti, og ég ítreka það að mikil nauðsyn er á því að þessi heildarendurskoðun á skattlagningunni fari fram. Og úr því að við erum svo heppin að hæstv. fjmrh. er á staðnum, þá vildi ég spyrja hann hvort áformað sé að fara í slíka endurskoðun á þeim lagabálkum sem til staðar eru og hvort hæstv. ráðherra telji þvílíka nauðsyn á að fella niður vörugjöld eða hækka á þeim vöruflokkum sem hér um ræðir, eins og kemur fram varðandi kakódrykki, að það hefði ekki mátt bíða þeirrar heildarendurskoðunar sem þarf að fara í. Og hvort rétt sé að taka út þessa flokka sem hér eru teknir út og reyndar þær breytingar sem áður hafa verið gerðar. Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um að þarna þurfi að vera eðlileg samræming, í þá vinnu þurfi að fara og við látum það frv. sem hér um ræðir bíða þangað til af því yrði?

Á einum gjaldflokki er vörugjaldið hækkað. Það eru þessir sérstöku kakódrykkir sem eru fæðubótardrykkir. Í umsögn frá Samtökum verslunarinnar sem barst nefndinni, þar sem þessari hækkun er mótmælt, segir, með leyfi forseta:

,,Samtökin mótmæla því að vörugjald á drykkjarvöruefni verði hækkað. Hér er um verulega hækkun gjaldsins að ræða á vörur sem almennt eru notaðar af börnum og sjúklingum (fæðubótardrykkir). Mun þessi hækkun koma verst niður á þeim sem síst skyldi, barnafjölskyldum, öryrkjum og öldruðum. Sú staðreynd að verulegt ósamræmi hefur verið í skattlagninu sambærilegra drykkjarvara getur ekki réttlætt þessa hækkun, nær væri að lækka gjaldið á þeim vörutegundum sem í dag bera 60 kr. gjald. Þetta mun einnig auka enn misræmi þar sem virðisaukaskattur er mismunandi á drykkjarvörur og lendir það aðallega á vörur sem hér flokkast. Þá vekur athygli að ekki er gert ráð fyrir hækkun gjaldsins á innlendar framleiðsluvörur sem eru í hvað mestri samkeppni við þær vörur sem frumvarpið tekur til.``

Ég leitaði mér upplýsinga um þessa fæðubótardrykki vegna þess að það kom einnig fram í umfjöllun nefndarinnar að hér væri kannski fyrst og fremst um að ræða drykki sem íþróttamenn notuðu. Það er að vissu leyti rétt en undir þetta númer falla einnig fæðubótardrykkir sem notaðir eru sérstaklega fyrir aldraða og einnig smábörn á sjúkrahúsum þegar um er að ræða að einstaklingurinn getur ekki tekið inn fasta fæðu. Í þessum fæðubótardrykkjum eru öll þau efni sem einstaklingurinn þarfnast og þetta mundi, eins og hér kemur fram, bitna mjög illa á þeim sem þurfa að nota þessa vöru heilsunnar vegna. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið möguleiki á því að fresta a.m.k. þessari hækkun þó ekki sé um að ræða að gjaldið hækki í 60 kr. heldur 50 kr. og er það þá til þess fyrst og fremst að þessi gjaldstofn skili því sama í ríkiskassann og hann gerði áður en á sama tíma er gjaldið alfarið fellt niður af öðrum flokkum? Og hefði ekki verið eðlilegt að láta t.d. niðurfellingu gjalda af byssum, hjólbörum og marmara í legsteina og fleiri álíka vörur bíða ef það mætti verða til þess að hægt væri að bíða með þessa breytingu þar til heildarendurskoðun hefði farið fram?

Það má einnig nefna poppkornið og snakkið þar sem verið er að fella niður gjald á sama tíma og verið er að hækka það á fæðubótardrykkjum. Ég tel þetta mjög ranga ákvörðun og í raun og veru engin rök fyrir því að hækka gjaldið á fæðubótarefnunum á sama tíma og vörugjald er fellt af óhollustunni sem sannarlega er til staðar í vörum sem kallaðar eru snakk. Og ég tel ekki vera nokkrar einustu forsendur fyrir því að hækka gjaldið á fæðubótardrykkjunum. En nú er um önnur lög að ræða sem lúta að þeim samningi sem hæstv. landbrh. hefur gert við Noreg um innflutning á norskum ostum og snakki á móti útflutningi á 200 hestum. Er eitthvert samhengi á milli þess sem er að gerast með niðurfellinguna á vörugjaldinu af snakkinu og þess sem er í samningi frá hæstv. landbrh.?