Vörugjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:19:16 (7170)

2000-05-09 12:19:16# 125. lþ. 109.28 fundur 520. mál: #A vörugjald# (fjárhæð gjalds af tilteknum vörum) frv. 103/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það vill nú þannig til að heildarúttekt og endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu er nýlokið. Næsta mál á dagskrá þessa fundar er einmitt einn afraksturinn af því starfi. Og þegar það frv. verður orðið að lögum, sem vonandi verður mjög fljótlega, er ætlunin að breyta einnig nokkrum reglugerðum í samhengi við þær lagabreytingar.

Varðandi vörugjaldið þá er þetta frv. sem nú er til meðferðar stútfullt af tillögum um samræmingu og leiðréttingar af ýmsu tagi. Það er auðvitað ekki við það búandi að sambærileg vara sé skattlögð með mismunandi hætti að því er varðar eina tiltekna skatttegund, þ.e. vörugjald, ekkert frekar en í virðisaukaskattinum. Það er verið að reyna að taka á því. Það á við um þetta margumrædda snakk, popp og þetta drasl sem fólk leggur sér til munns sem er nú ekki veigamikill tekjustofn fyrir ríkissjóð eins og kunnugt er. En það er auðvitað óþolandi fyrir þá sem versla með þetta og framleiða að ekki skuli vera samræming í gjaldtökunni af hálfu hins opinbera þannig að neytandinn geti hlutlaust valið á milli þessara vörutegunda.

Sama er að segja um kakómaltið. Þar nú reyndar áratugagamalt vandræðamál sem menn tóku hér á árið 1985 og tengdist ýmsum drykkjarvörum. Hér er bara um það að ræða að samræma þetta og til að valda ekki tekjutapi var valin sú leið að samræma þessa gjaldtöku í efri mörkunum að því er þetta varðar þó að sums staðar annars staðar hafi verið farin sú leið að fella brott vörugjaldið. Hérna er um að ræða kílóagjald sem er annars eðlis heldur en prósentuskattur eins og kunnugt er.

Hvort endurskoða eigi vörugjaldslöggjöfina síðan í heild sinni kemur það auðvitað vel til greina án þess að ég vilji gefa sérstaka yfirlýsingu um það núna. Þessi skatttegund hefur verið til skoðunar og hún er að mörgu leyti mjög gölluð. En hún er mikilvæg í tekjuöflun ríkissjóðs og það verður að skoða það í því samhengi líka.