Ríkisábyrgðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:34:59 (7176)

2000-05-09 12:34:59# 125. lþ. 109.30 fundur 595. mál: #A ríkisábyrgðir# (Íbúðalánasjóður og LÍN) frv. 70/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:34]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Við þingmenn í minni hluta í efh.- og viðskn. skrifum undir nál. án fyrirvara. Það var reyndar bundið því að sú brtt. sem hér er væri flutt þar sem um er að ræða að í upphaflega frv. var ekki gert ráð fyrir því að ríkisábyrgðir væru vegna tveggja lánaflokka, sem skipta mjög miklu, þ.e. leiguíbúðir og viðbótarlán í svölluðu félagslegu kerfi, heldur ættu þær eingöngu að vera vegna þeirra lánaflokka sem eru nú á ábyrgð Íbúðalánasjóðs en voru áður hluti af húsnæðislánakerfinu.

Við teljum og það kom fram í umsögn sem barst frá Íbúðalánasjóði að ef þessir tveir flokkar, þ.e. viðbótarlánin og leiguíbúðirnar, væru ekki teknir með hvað varðar ríkisábyrgðagjaldið þá þýddi það að hækka þyrfti sérstaklega vexti á þeim tveim lánaflokkum sem um ræðir.

Afstaða fjmrn. lá fyrir þar sem ekki hafði verið greitt í sérstaka varasjóði vegna þeirra lánaflokka sem talið var af hálfu fjmrn. forsenda þess að ríkisábyrgðagjaldið væri fellt niður. Eftir viðræður við Íbúðalánasjóðinn kom frá þeim yfirlýsing þess efnis að stofnaður yrði sérstakur varasjóður sem lyti að þessum tveimur lánaflokkum til að mæta hugsanlegum útlánatöpum fyrir þá lánaflokka sem höfðu ekki sérstaka varasjóði áður.

Sú yfirlýsing barst í upphafi þessa mánaðar og þar segir, með leyfi forseta:

,,Í framhaldi af umsögn Íbúðalánasjóðs um ofangreint efni sem sent var nefndinni með bréfi dags. 24. apríl 2000 vill Íbúðalánasjóður taka fram að ákveðið hefur verið að stofna varasjóð til að mæta hugsanlegum útlánatöpum fyrir þá lánaflokka sem ekki hafa nú þegar sérstakan varasjóð.

Í dag er greitt í varasjóð fyrir húsbréfalán og viðbótarlán en það sem þá er eftir eru lántökur vegna leiguíbúða sveitarfélaga og félagasamtaka svo og nokkrir smærri lánaflokkar. Hér er aðeins um lítinn hluta af heildarlántökum Íbúðalánasjóðs að ræða eða sem svarar um 2,5 milljörðum kr.

Mál þetta hefur verið rætt í stjórn Íbúðalánasjóðs og verður tekið til lokaafgreiðslu á fundi stjórnar sjóðsins fimmtudaginn 4. maí nk.``

Þetta er sent 2. maí og síðan barst okkur yfirlýsing þess efnis að ákveðið hefði verið að stofna slíkan varasjóð. Því er sú brtt. sem hér er lögð til svohljóðandi: ,,Lán sem áhættugjald skv. 4. gr. hefur verið greitt af, skuldbindingar vegna innstæðna á innlánsreikningum í innlánsstofnunum, skuldbindingar vegna útflutningsábyrgða með ríkisábyrgð, Seðlabanki Íslands, Íbúðalánasjóður og Lánasjóður íslenskra námsmanna eru undanþegin greiðslu ábyrgðargjalds skv. 6. gr.`` --- Og þar falli undir þeir lánaflokkar sem áður hafa verið gerðar athugasemdir við af hálfu Íbúðalánasjóðs.

Við teljum að þetta sé mjög mikilvægt til að halda niðri vöxtum, einkanlega á þessum tveimur lánaflokkum hvað varðar viðbótarlánin og leiguíbúðirnar, sérstaklega í ljósi þess að stöðugar og auknar kröfur eru á byggingu leiguíbúða á mjög þröngum markaði og þetta getur skipt máli þar, ekki einungis vaxtahækkunin heldur getur líka orðið hvatning til að fleiri leiguíbúðir verði byggðar.