Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:42:23 (7181)

2000-05-09 12:42:23# 125. lþ. 109.32 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:42]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 1251 við frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem sjútvn. flytur. Þar segir:

,,Við 3. gr. Í stað dagsetningarinnar ,,15. maí 2000`` í 2. og 3. málsl. efnismálsgreinar b-liðar komi: 15. júní 2000.``

Eins og fram kemur er eingöngu verið að breyta dagsetningum til þess að gera mönnum kleift sem eru í þeirri stöðu að sækja um til að fá svokallað krókaaflamark. Eins og ég gerði mjög ítarlega grein fyrir á sínum tíma þegar ég mælti fyrir brtt. hv. meiri hluta sjútvn. var ákveðið í nefndinni og lagt til við Alþingi að opna þann möguleika fyrir þá aðila sem tekið höfðu á sig fjárhagslegar skuldbindingar og tekið ákvarðanir á grundvelli gildandi laga, að hafa heimild til að þeir gætu farið inn í svokallað krókaaflamark sem felur það í sér að þeir mega eingöngu fiska upp að tilteknu marki í þeim tegundum sem þar frá greinir en eru hins vegar ekki háðir því að kaupa úreldingu.

Gert er ráð fyrir því í þessari brtt. að möguleikinn til að fara inn í þetta sé framlengdur frá 15. maí til 15. júní. Í ljósi þess að málið hefur tekið þetta langan tíma í meðförum eins og eðlilegt er af mörgum ástæðum þykir eðlilegt að hafa þennan rétt aðeins rýmri í tíma tekið.