Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:59:54 (7183)

2000-05-09 12:59:54# 125. lþ. 109.32 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:59]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara lýsa því yfir að mér finnst leitt að heyra frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að þingflokkur Samfylkingarinnar geti ekki tekið undir neina af þeim brtt. sem við höfum lagt fram. Tillögur okkar taka vissulega mið af því kerfi sem er í gildi og eru eingöngu ætlaðar til að þeir sem við eiga að búa --- menn þurfa náttúrlega að búa við þau lög sem héðan hafa komið meðan þeim er ekki breytt --- geti lifað af þann endurskoðunartíma sem liggur fyrir að meiri hluti þingmanna á Alþingi ætlar að taka sér, þ.e. endurskoðunartíma í 1--2 ár. Þess vegna voru þessar tillögur fluttar til að reyna að gera það að verkum að stór hópur manna sem reynt hefur að lifa við leiguliðakerfið sem þeim hefur verið boðið upp á næði að lifa af þennan breytingatíma. Burt séð frá því hvort við höfum aðrar skoðanir á því hvernig framtíðin muni líta út að þessu leyti þá held ég að þetta hefði verið eðlilegt.

Varðandi það sem sagt var um þær tegundir sem við leggjum til að fari út úr kvótakerfinu þá er það einfaldlega þannig að fiskifræðingar leggja til hámarksafla en það er ráðherra sem ákveður hvað fellur undir kvótann. Það var ráðherra sem ákvað að taka steinbítinn inn á sínum tíma og reyndar fleiri fisktegundir sem hafa lent inn í kvótakerfinu á undanförnum missirum.