Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:31:17 (7189)

2000-05-09 13:31:17# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Stórfyrirtækin Securitas og Íslenskir aðalverktakar hafa sem kunnugt er ákveðið að hasla sér völl innan heilbrigðisþjónustunnar og hyggjast reisa og reka elliheimili en það er mat margra að af þessu megi hafa góðan arð, þ.e. ef samningamenn hins opinbera eru skilningsríkir og jákvæðir gagnvart þeirri grundvallarbreytingu að hætta að líta á velferðarkerfið fyrst og fremst sem þjónustuaðila heldur sem hverja aðra atvinnustarfsemi þar sem arðsemiskröfur ráði för.

Securitas og Íslenskir aðalverktakar koma nú fram á sviðið í nýju hlutverki og undir nýju heiti. Fyrirtækið, sem heitir Öldungur hf., hefur nú gert samning við ríkisstjórnina um að reisa elliheimili fyrir 92 vistmenn að Sóltúni 2 í Reykjavík. Fyrir þetta fær fyrirtækið 11,8 milljarða og gildir samningurinn í aldarfjórðung. Eftir þann tíma mun Öldungur hf. eiga stofnunina.

Ég læt hér liggja á milli hluta hversu óhagkvæmt þetta er fyrir skattborgarann og notandann sem á yfir höfði sér þá hótun ríkisstjórnarinnar að þjónustugjöld verði aukin í tengslum við þessa einkaframkvæmd ofan á tilkostnað skattborgarans. Ég ætla ekki heldur að ræða á þessu stigi hagsmuni starfsfólksins sem ég tel vera verr borgið í þessu nýja fyrirkomulagi þrátt fyrir yfirlýsingar talsmanns Securitas um hið gagnstæða heldur ætla ég fyrst og fremst að einbeita mér að því að fá svör og upplýsingar frá hendi hæstv. heilbrrh. um þennan makalausa samning.

Í fyrsta lagi. Hver er tilgangurinn með því að bjóða út hjúkrunarheimili fyrir aldraða í einkaframkvæmd?

Í öðru lagi. Ef tilgangurinn er sá að ná sem hagkvæmustum samningum fyrir ríkið hvernig stendur þá á því að Hrafnistu var ekki gert kleift að bjóða í heimilið og samnýta ýmsa stoðþjónustu sem er fyrir hendi hjá DAS eins og t.d. eldhús, sjúkraþjálfun, þvottahús og yfirstjórn, en slíkt hlýtur að vera hagkvæmt fyrir alla aðila eins og stjórnvöld gerðu reyndar gagnvart Sunnuhlíðarsamtökunum við fjölgun hjúkrunarrýma þar?

Í þriðja lagi. Hvernig útskýrir hæstv. heilbrrh. þann mikla mismun sem er á daggjöldum til Sóltúns annars vegar og til annarra daggjaldastofnana hins vegar? Samkvæmt auglýsingu um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum daggjöldum er rekstrardaggjald fyrir fyrsta flokk hjúkrunarþyngdar samkvæmt RAI meira en 1,05, 10.250 kr., en í samningnum við Öldung hf. er gengið út frá að þetta gjald sé 11.880 kr. Auk þess fær Öldungur hf. daggjald vegna húsnæðis 2.420 kr. á legudag en aðrar stofnanir fá ekkert vegna húsnæðis. Samtals fær því Öldungur hf. 14.330 kr. fyrir hvern vistmann á dag. Miðað við 92 vistmenn gerir það rúmar 1,3 millj. kr. á dag eða tæpar 40 millj. kr. á mánuði.

Í fjórða lagi. Í samningnum við Öldung hf. er gert ráð fyrir að stöðugildi við hjúkrun séu 73,2. Þar af eru stöðugildi hjúkrunarfræðinga 15,8 og sjúkraliða 52. Nú hefur gengið mjög erfiðlega að manna heilbrigðisstofnanir með hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Hvernig hyggst heilbrrn. framfylgja því að Öldungur hf. standi við þetta atriði samningsins og til hvaða aðgerða verður gripið ef ekki tekst að uppfylla þetta atriði?

Í fimmta lagi. Hver hefur verið verkaskipting á milli heilbrrh. og fjmrh. við gerð samningsins við Öldung hf.?