Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:49:05 (7195)

2000-05-09 13:49:05# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðuleg forseti. Hæstv. heilbrrh. spurði einmitt réttu spurninganna. Hún spurði: Hver er munurinn á Öldungi hf., hlutafélagi og mannúðar- og sjálfseignarstofnunum annars vegar og ríkinu og sveitarfélögum? Hver er munurinn á hlutafélagi sem hefur það markmið að hagnast og hins vegar mannúðarstofnunum og hinu opinbera?

Grundvallarmunurinn er vitaskuld sá að fyrirtækið Öldungur hf. ætlar að hagnast á fjárfestingu sinni á meðan hin reka heimili sín á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Á þessu er grundvallarmunur og ég held að svar hæstv. heilbrrh. við þessari spurningu hafi einmitt verið kolrangt.

Í raun og veru er það þannig, virðulegi forseti, að sú hugmyndafræði sem verið er að bera á borð minnir um margt á niðurboð á niðursetningum fyrri ára, þ.e. þeir sem lægst bjóða til að sjá um fólkið fái að þjónusta það. Það er í raun og veru sú hugmyndafræði sem er að baki og mér finnst það alls ekki við hæfi í umræðunni að þessum hugmyndum sem hér er verið að ræða sé jafnað við hugmyndir eða rekstur sem hefur byggt á hugmyndum verkalýðshreyfingarinnar, sjómannasamtaka og annarra slíkra sem hafa að meginstofni til stofnað til þess reksturs sem vitnað hefur til á Grund, DAS og víðar.

Virðulegi forseti. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða hvað varðar hugmyndafræði að baki því að þjónusta aldraða á ævikvöldinu. Maður skyldi, virðulegi forseti, kannski ætla að það væri þá eitthvað á bak við þetta, hugsanlega einhver fjármálasnilld eða eitthvað þess háttar en það er ekki. Það er ekki, virðulegi forseti, því að þá á að muna upp undir 40--70% hvað þetta á að vera dýrara en það sem nú tíðkast þannig að, virðulegi forseti, það er alveg ljóst að mannúðarsjónarmiðunum er kastað fyrir róða. Þetta er mun dýrara og ég held að hæstv. heilbrrh. skuldi okkur einhverja skýringu á því hvernig í ósköpunum á því standi að þessi hugmyndafræði er borin á torg.