Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:55:46 (7198)

2000-05-09 13:55:46# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það hljómar dálítið einkennilega þegar það er sagt í umræðum að heilbrrh. hafi unnið óþarfaverk með því að semja um byggingu á nýju hjúkrunar- og dvalarheimili. Þetta heimili er byggt til að bæta úr brýnni þörf og engin ástæða er til að útiloka nýja aðferð í þessu skyni sem er einkaframkvæmd en auðvitað verða menn að draga af henni lærdóma og í þessu tilfelli er samið um hátt þjónustustig og ætlast til að þar verði sjúklingar með mikla hjúkrunarþyngd.

Það hefur verið þannig í spítalakerfinu á Íslandi að það hefur verið talið eitt af þeim atriðum þar sem skórinn kreppir að að langlegusjúklingar liggi í of ríkum mæli inni á hátæknisjúkrahúsum. En það er of langt mál til að fara út í það hér. Því hefur verið haldið fram að mannúðarsjónarmiðum hafi verið kastað fyrir róða. Því fer víðs fjarri.

Það er nú þannig að skilgreiningar á þjónustu eru afar mikilvægar í þessu sambandi og að skilgreina þjónustuna eftir þeim markmiðum sem við höfum um velferðarkerfið í landinu og hafa síðan eftirlit með samningnum, að sá samningur sé haldinn. Ég næ ekki upp í þá fornaldarhugsun sem kemur fram hjá vinstri grænum og Samfylkingunni í þessu efni. Ég verð að segja það alveg eins og er að útiloka þennan möguleika en hins vegar er hér um vandasama framkvæmd að ræða en ég tel að það sé vel þess virði að ráðast í hana og það bætir úr brýnni þörf í þessum efnum að ráðast í þessa framkvæmd.